Færsluflokkur: Bloggar

Mútuþegar Íslands

Hvað er annað hægt að kalla þetta fólk. Í sjálfu sér er eðlilegt að fjármagna þurfi framboð en prófkjör verða að fara fram án þess að til þess þurfi einhverja risastyrki. Þessi fyrirtæki hafa væntanlega ætlast til að þessar fjárfestingar þeirra skiluðu arði eins og lenska var á þessum tíma. Mér finnst allir stjórnmálamenn sem þáðu styrki frá þessum fyrirtækjum hafa brugðist trausti og trúnaði. Þó eru sýnu verst þau sem tóku við háu upphæðunum og eiga þau að sjá sóma sinn í að víkja nú þegar af framboðslistum. Sumir eru að vísu ekki í framboði lengur og það er gott að ekki skuli vera um að ræða að þetta fólk sé fyrir heiðarlegu fólki.

Það vekur athygli að enginn úr röðum VG skuli vera á listanum. hins vegar eru 7 manns með styrki uppá 500.00 eða meira og af þeim eru 4 með yfir milljón. Ef þetta fólk les bloggið hjá mér þá þætti mér vænt um að þau svari í athugasemdum hvað Baugur fékk fyrir þessa styrki.


mbl.is Þrjú fengu 2 milljónir frá Baugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er formaður VG á móti stóriðju?

Formaður VG sendi frá sér fréttatilkynningu þess efnis að frambjóðendur VG hafi ekki þegið neina styrki af fyrirtækjum vegna prófkjörs. Samkvæmt þessu eigum við að trúa að allt sé í lagi hjá frambjóðendum VG.

Formaðurinn er hins vegar orðinn samofinn kerfinu. Hann hefur ekkert rætt eftirlaunafrumvarpið sem hann samþykkti á sínum tíma. Þar var ákvæði þess efnis að formenn flokka í stjórnarandstöðu áttu að fá launahækkun, sem hann og fékk. Þarna lét Steingrímur skattborgara greiða sér hærri laun sökum formennsku í flokki. Eiginkona Steingríms er líka öll af vilja gerð til að redda tekjuhlið heimilisbókhaldsins. Á meðan Steingrímur er á móti virkjunum í Þjórsá þá semur hún við verktaka við virkjunina um efnistöku í landi sínu. Þannig að meðan Steingrímur mótmælir virkjun þá fær frúin tekjur af byggingu hennar.

Það er svo sem gott að hrópa á torgum en oft er erfiðara að lifa eftir hrópunum.


Sammála um að vera ósammála.....

Samfylkingin og Vinstri Grænir eru víst sammála um að vera ósammála. Þeir ætla að vera ósammála um helstu stefnumál sín. VG vilja ekki virkjanir og stóriðju en það vill Samfylking. Samfylkingin ætlar í ESB en VG er ekki hrifið af því. Það er því ljóst að flokkarnir verða að stóla á aðra flokka hvað varðar þessi stóru stefnumál þeirra. Síðan er það bara spurningin um hvað annað þeir ætla að vera ósammála um. Kannski verða það smáatriði eins og fjárlög, utanríkisstefna, menntamál, heilbrigðismál og fleira. Við verðum víst að bíða þar til eftir kosningar til að sjá hvað fleira þeir ætla að vera ósammála um.
mbl.is Evrópustefnan verði á hreinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftirtekt sjálfstæðismanna er mikið ábótavant

Þegar menn taka ekki eftir breytingu á tekjum uppá 50 milljónir milli ára þá eru menn ekki að skoða reikningana. Ef menn hins vegar taka eftir þessum breytingum á tekjum og gera ekki athugasemd eða fara fram á skýringar þá eru þeir ekki að vinna vinnuna sína. Þetta eru síðan þeir menn sem vilja fá að stjórna landinu áfram, en hins vegar skilur maður betur hvers vegna fór svona illa.
mbl.is Nöfn fyrirtækja ekki rædd í miðstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En hvaða einstaklingar ?????

Ætli hann hafi ekki haft samband við forstjóra FL group og bankastjóra Landsbankans. Það eru náttúrulega nokkrir einstaklingar.
mbl.is Guðlaugur ítrekar fyrri yfirlýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðismenn byrjaðir að sjóða uppnefnasúpuna

Það er grætilegt að sjá að flokkur sem telur sig vera málsmetandi skuli ekki geta sett fram málefnanlega umræðu heldur uppnefnir til hægri og vinstri. Upphafsmaður þessarar tækni er Davíð Oddsson. Honum var það tamt að þegar á móti blés þá annaðhvort skellti hann fram uppnefni eða staðhæfði einhverja vitleysu sem hann þurfti síðan ekki að svara fyrir.

Nú er Sjálfstæðisflokkurinn byrjaður í kosningabaráttu. Fyrsta málefnanlega umræðan kemur þegar varaformaður flokksins uppnefnir fjármálaráðherra skattmann og síðan kemur fyrrv. seðlabankastjóri, bitur og gamall, og segir eftirmann sinn vera með alzheimer.

Kosningabaráttan er hafin.


mbl.is Víkingar með Samfylkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki var það bloggið

Ekki var það bloggið sem varð til þess að Sigurður fékk reisupassann. Ef rétt er farið með upphæðir þá er ljóst að þarna er um að ræða umtalsverðan fjárdrátt. Hann er ekki búinn að vera í starfi í 3 ár en nær að misreikna sér laun svo nemur milljónum. þeir eru til sem ekki eru með milljónir í laun, hvað þá að ná slíkum upphæðum með "misreikning".

Hins vegar er það nokkuð ljóst að Sigurður bloggaði talsvert um menn og málefni. Mér fannst gaman að því bloggi og svaraði honum gjarnan. Eins fékk hann svör frá öðrum og bar aðeins á því að menn gættu ekki hófs og vönduðu ummæli sín og er það miður.


mbl.is Sveitarstjóra sagt upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sveitarstjóri rekinn?

Sigurður Jónsson er orðinn fyrrverandi sveitarstjóri í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Starfslok Sigurðar komu eins og þruma úr heiðskýru lofti. Við sem búum í sveitarfélaginu vissum ekki til að það væri einhver óánægja hjá meirihlutanum með störf sveitarstjórans. En hvað kom þá til.

Mínar heimildir segja að Sigurður hafi ofreiknað sér laun. Bæði er þar um að ræða ofreikning á samningsbundnum launahækkunum og eins mun vera um að ræða einhvern ágreining um laun vegna fundarsetu, en sveitarstjóri sat fjölda funda fyrir sveitarfélagið í starfi sínu.

Sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps var á ágætis launum hjá sveitarfélaginu. Þetta má lesa úr ársreikningum hreppsins. Því vekur það nokkra furðu að menn skuli misnota trúnaðaraðstöðu í litlu sveitarfélagi og hafa á þennan hátt pening út úr sveitarfélaginu. Þetta mál Sigurðar ásamt fleiri líkum málum gera það að verkum að greinilega þarf að setja skýrar verklagsreglur um eftirlit með stjórnendum lítilla sveitarfélaga. Eins þarf að skoða hvort sveitarstjórnir eigi ekki að fylgjast betur með störfum ráðinna sveitarstjóra. Eitt er a.m.k. ljóst. Það er erfitt að treysta mönnum fyrir peningum.


Mótmælin halda áfram

Ég kom við á Austurvelli eftir vinnu í dag til að upplifa mótmælin öðruvísi en í gegnum fjölmiðla. Þar var fyrir hópur fólks á öllum aldri sem trommaði og hrópaði "Vanhæf ríkisstjórn". Lögreglan stóð síðan vaktina á móti mótmælendunum. Ég gæti vel trúað að einhver slatti lögreglumanna vildi allt eins vera staddur í hópi mótmælanda. Þegar allt kemur til alls þá eru lögreglumenn einnig íbúar þessa lands og ástandið hefur bitnað á þeirra kjörum alveg eins og allra annara. Afskaplega fundust mér svo hallærislegir þeir sem komu með klúta fyrir andliti til að þekkjast ekki. Meðan ég staldraði við þá kom hópur söngfólks og söng nokkur lög. Þetta braut mótmælin upp á jákvæðan og skemmtilegan hátt.

Ingibjörg Sólrún er tilbúin til að halda lífi í Geir í einhverja daga enn. Hún er þó loks komin á þá skoðun að það þurfi að kjósa í vor. Það þarf bara að passa uppá að hún og hinir snillingarnir í ríkisstjórninni haldi áfram að vera við kjötkatlana þannig að aðrir geti ekki komist að. Kannski er hún hrædd um að missa ritstjórnarvald yfir hvítbókinni sem hún og Geir eru að láta skrifa um sig. Þessi valdsstjórn ætti hins vegar að sjá að dagar hennar eru taldir og fara frá. Sjálfstæðisflokknum er alls ekki treystandi fyrir hagstjórn, þeir hafa klúðrað málum svo gersamlega að börnin mín hefja lífsbaráttuna í þjóðfélagi sem er á góðri leið með að verða þriðja heims ríki. Samfylkingunni er vorkun. Gleði þeirra við að komast loks að var svo mikil að þau gleymdu að það er ekki nóg að sitja í stólunum og koma sínum flokksmönnum á rétta staði í stjórnkerfinu. Það gleymdist alveg að vinna þá vinnu sem þau réðu sig í.

Vonandi lifir ríkisstjórnin ekki fram að helgi.


mbl.is Á þriðja hundrað á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórhuga sveitarfélag

Fyrir nokkrum árum sameinuðust Skeiðahreppur og Gnúpverjahreppur. Þessi sameining var orðin löngu tímabær en því miður var hún ekki nægjanlega stór. Ekki var haft samband við Hrunamenn og því fór það þannig að til varð Skeiða- og Gnúpverjahreppur.

Í fyrstu var hreppurinn rekinn þannig að þær stofnanir sem þar voru héldu sér óbreyttar en að lokum var grunnskólinn fluttur í Árnes og leikskólinn fluttur í Brautarholt. Þessir flutningar á skóla voru umdeildir í sveitarfélaginu og má segja að fylkingar hafi skipst eftir gömlu hreppamörkunum. Þegar grunnskólinn var fluttur úr Brautarholti var m.a. bent á sem röksemd fyrir að halda honum þar að þar væri nýbyggður íþróttasalur í stað þess gamla sem eyðilagðist í jarðskjálftanum árið 2000.

Grunnskólamálin voru kosningamál í síðustu sveitarstjórnarkosningum og í kosningabaráttunni var núverandi meirihluta bent á að flutningur skólans væri óhagkvæmur þar sem aðstaða til íþróttaiðkunar, sunds og mötuneytis væri þar öll til fyrirmyndar en því væri ekki að heilsa í Árnesi. Núverandi meirihluti benti þá á salinn sem væri í Árnesi í um 600 metra fjarlægð frá skólanum en þar væri bæði mötuneyti og íþróttaaðstaða. Þeim var bent á að á kjörtímabilinu myndu þeir líklega leggja til byggingu íþróttasalar en mótrök þeirra voru að slík eyðsla yrði ekki.

Núna er sveitarstjórn búin að samþykkja að leigja Landsvirkjun salinn í Árnesi til 10 ára. Fyrir þetta fær sveitarfélagið 85 milljónir. Strax eftir þessa samþykkt föttuðu sveitarstjórnarmenn meirihlutans að þeir væru búnir að leigja frá sér íþróttaaðstöðu skólans og mötuneytið. En lausnin var fljótfundin. Bara að byggja nýjan sal. Kostnaður verður sennilega ekki undir 200 milljónum en hvað er það í svona góðæri. Hugsunin er talsvert 2007. Þegar leigutíma lýkur þá er þetta 500 manna sveitarfélag með þrjú íþróttahús, 187 íbúar á hvert hús.

Næsta mál á dagskrá verður að byggja þyrlupall í Árnesi svo sveitarfélagið geti keypt eitthvað af góðæris þyrlunum á brunaútsölunni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jónas Yngvi Ásgrímsson
Jónas Yngvi Ásgrímsson

er framsóknarmaður búsettur í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og hefur skoðanir á málefnum sveitarinnar.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband