27.6.2007 | 15:08
Að loknum skólanefndarfundi
Þann 26.06. var haldinn skólanefndarfundur varðandi málefni leikskólans. Fundarboð barst með pósti þann 25. og var það þannig að sumir fundarmenn voru ekki enn búnir að opna póstinn þegar fundurinn hófst. Leikskólastjóri kynnti ársskýrslu sína og var hún um margt áhugaverð. Ljóst er að vel er staðið að faglegum málefnum leikskólans og eru krakkarnir okkar heppin með starfsfólk, bæði faglært og ófaglært. Það eru þó nokkur atriði sem ég hnaut um og vildi fá nánari skýringar á. Í upptalningu um starfsfólk kemur fram að staða leikskólastjóra er reiknuð 100% og skiptist þannig að 10% stöðuhlutfall er við kennslu en 90% er við stjórnun. Satt best að segja þá finnst mér hlutfall í stjórnun talsvert hátt. Ég tók mér það bessaleyfi að bera þetta saman við skólastjóra í Þjórsárskóla sl. vetur en hennar hlutfall í kennslu var eitthvað um 36%. Mér finnast það vera undarleg fræði ef leikskólastjóri er ráðinn í 90% stjórnun yfir 33 börnum og 8 starfsmönnum meðan stjórnunarstaða skólastjóra telst vera 64% í 62 barna og 14 starfsmanna skóla. Einhversstaðar hefur einhver samið af sér. Ég hef einnig verið að velta fyrir mér aukningu á stöðugildi í eldhúsi við það eitt að grunnskólinn fari (27 börn og 5 starfsmenn) fari og eftir verði leikskólinn, en hann fékk sinn mat frá mötuneyti skólans. Stöðugildi eykst úr 1,3 í 1,5. Þegar ég hafði samband við leikskóla í Kópavogi fékk ég þær upplýsingar að hjá þeim væru stöðugildin í eldhúsi 1,6 (94 börn og 30 starfsmenn).
Næsta mál á dagskrá var áætlun leikskólaárið 2007-2008. Í stuttu máli kemur það þarna fram að leikskólinn fjölgar starfsdögum úr 4 í 6 á komandi vetri. Eins og svo fallega var bent á þá á að "fella saman starfsdaga og vinnufundi til þess að spara fyrir sveitarfélagið" Það er ekki bent á að þarna er um að ræða skerðingu á þjónustu við íbúana. Leikskólastjóri heldur fjögurra klukkustunda vinnufundi í hverjum mánuði og vill gjarnan halda þá á vinnutíma. Ég veit ekki hvernig þessi mál eru leyst hjá öðrum leikskólum en mér er það til efs að loka þurfi leikskólum í einhverja klukkutíma á mánuði vegna fundarhalda. Ég þekki þó vel til á einum leikskóla á höfuðborgarsvæðinu og þar eru starfsmannafundir haldnir á kvöldin. Ég greiddi atkvæði gegn þessari tillögu.
Næsti liður fjallaði um akstur leikskólabarna og þar var tilkynnt að samið hefði verið við Bjarna Ófeig Valdimarsson um aksturinn en staðan ekki auglýst. (þess má geta að 20.ágúst 2002 samþykkti skólanefnd að auglýsa öll störf). Ekki liggur nákvæmlega fyrir hvernig akstrinum verður háttað en þó er ljóst að einungis verður ekið 4 morgna í leikskólann og 2-3 eftirmiðdaga heim aftur.
Í dagskrárliðnum starfsmannamál kom formaður skólanefndar með tillögu þess efnis að skólanefnd afsali sér því hlutverki sínu að fjalla um ráðningar starfsmanna, sem henni er sett í skipunarbréfinu. Ég sat hjá við þessa afgreiðslu þar sem ég er ekki viss um að skólanefndin geti afsalað sér hlutverki sem hún á að sinna. Forsendurnar sem formaður gaf upp voru þær helstar að það væri ekki hægt að kalla saman fund í hvert skipti sem ráða þurfi nýjan starfsmann. Greinilega er starfsmannavelta umtalsverð. Þetta sagði hann líka að tíðkaðist í grunnskólanum. Það er þó ekki alls kostar rétt hjá honum þar sem skólastjóri ber allar ráðningar undir skólanefnd sbr. fundargerð.
Bókunum formanns skólanefndar og leikskólastjóra verður svarað síðar á þessum vettvangi.
Í fundarlok spurðist ég fyrir um nokkur málefni sem hafa dagað uppi, þ.e. var frestað á fundum en hafa ekki verið tekin upp aftur. Fyrsta málið sem ég spurði um varðaði fundargerð 18.12.2006en þar var kynnt að farið yrði yfir rekstrarliði ársins 2007 á næsta fundi. Leikskólastjóri sagði rekstraráætlanir og fjármál ekki vera í sínum verkahring og svar formanns var ekki samkvæmt bókuninni í fundargerð 18.12.2006.
Í fundargerð 26.03.2007 var samþykkt að fela formanni skólanefndar, leikskólastjóra og sveitarstjóra að forgangsraða framkvæmdum vegna athugasemda Brunavarna Árnessýslu. Formaður sagði að ekki hefði verið fundað um þetta mál.
Í sömu fundargerð kom fram að lækka ætti mötuneytiskostnað vegna breytingar á virðisaukaskatti og sagði leikskólastjóri að sú lækkun væri komin fram.
Aðspurður sagði formaður að lækkun á kostnaðarþátttöku biði ákvarðana ríkisstjórnar um þátttöku í kostnaði við leikskólahald.
Þegar ég spurði formann um af hverju tillaga sem ég bar upp á síðasta fundi væri ekki tekin til afgreiðslu var svar hans að honum fyndist tillagan svo fíflaleg að hann ætlaði ekki að taka hana fyrir.
Þegar þarna var komið við sögu var mér farið að ofbjóða svo mikið vinnubrögð formanns að ég yfirgaf fundinn.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.