5.7.2007 | 18:34
Góð þjónusta?
Á heimasíðu Skeiða- og Gnúpverjahrepps er kominn nýr pistill frá sveitarstjóra. Þegar ég las skrifin fór ég að velta fyrir mér hvort hann hefði yfirleitt kynnt sér stöðu mála í sveitarfélaginu eða skrifaði greinar fyrst og fremst með Copy Paste aðferðinni. Ég ætla að skoða nánar greinina en hana kallar sveitarstjórinn "Góð þjónusta"
Í fyrsta hluta greinar sinnar fjallar hann um þær miklu breytingar sem verið er að gera á skólahúsnæðinu í Brautarholti. Breytingar sem valda því að hægt er að fjölga börnum svo voðalega mikið í leikskólanum. Að vísu kallar þessi fjölgun á að íbúar fáist til að flytja í sveitarfélagið en núverandi og fyrrverandi sveitarstjórnir hafa ekkert gert til að laða að íbúa. Hann bendir samt sem áður á að stóra vandamálið sé að erfitt sé að fá fólk til að vinna við leikskólann (og því verður erfitt að fjölga börnunum).
Næst tekur sveitarstjórinn sig til og afritar úr fundargerð skólanefndar hluta af skýrslu leikskólastjóra þar sem tekið er fram hversu góður leikskólinn sé.
- Eins árs börnum veitt leikskólavist. Mikið rétt, og í sumum tilvikum hefur yngri börnum verið veitt leikskólapláss.
- Leikskólinn opnar kl. 7:30 á morgnana. Ekki rétt. Samkvæmt tillögu leikskólastjóra verður leikskólinn opnaður kl. 7:45 á morgnana og þau börn sem þurfa á skólaakstri að halda eiga að vera mætt kl. 09:00 í aksturinn 4 daga vikunnar. Leikskólinn lokar líka kl. 15:00 þrjá daga vikunnar hjá þeim sem njóta skólaaksturs. Hina dagana eiga foreldrarnir að sjá um aksturinn (þrátt fyrir loforð meirihlutans fyrir kosningar). Ég veit um foreldra sem gerðu ráð fyrir að áfram yrði opnað kl. 7:30 næsta vetur en verða nú að minnka við sig vinnu.
- Systkinaafsláttur er 50%. Mikið rétt.
- Upphaf og lok vistunartíma getur miðast við stundarfjórðung. Að vísu fer þarna dálítið eftir starfsmannahaldi.
- 50% hlutfall fagmenntaðra. og fer minnkandi.
- Öflugt og markvisst faglegt starf þar sem áherslan er lögð á þátttöku alls starfsfólks, allt starfsfólk fær undirbúningstíma fyrir faglegt starf sem skilar sér í betra faglegra starfi fyrir börnin. Þessi undirbúningstími er hins vegar þannig að leikskólanum er lokað einn fimmtudagseftirmiðdag í mánuði (eini leikskólinn sem ég hef heyrt af) og því um þjónustuskerðingu að ræða.
- Samstarf leik- og grunnskóla í góðum farvegi með vikulegum heimsóknum. Þetta er þó það atriði sem starfsfólk leikskólans taldi einna brýnast að bæta. Einnig ber að geta þess að það ríkir alger óvissa um hvernig tekst til næsta vetur þegar skóli og leikskóli verða flutt í sinn hvorn byggðarkjarnann.
- Foreldrar geta haft vistunartíma á föstudögum öðruvísi. Ekki bara föstudögum heldur alla daga ef leikskólastjóri lætur af andstöðu sinni við ítrekaðar samþykktir skólanefndar.
- Foreldrar eiga þess kost að hafa börnin sín í lengra sumarfríi án þess að þurfa að greiða fyrir leikskólaplássið. Hins vegar er leikskólinn lokaður í júlí og fram í ágúst. Þetta veldur því að foreldrar verða alltaf að taka sumarfrí á þessum tíma. Þannig háttar hins vegar á vinnustöðum að ekki er alltaf hægt að taka sumarfrí þegar öllum hentar og því eru dæmi þess að ekki næst að taka sumarfrí saman hjá allri fjölskyldunni. Og skárra væri það ef menn þyrftu að greiða fyrir þjónustu sem þeir nýta ekki. Þeir eru heldur ekki margir leikskólarnir á landinu sem loka í einn og hálfan mánuð.
Þetta er sem sagt ekki alls kostar rétt, og við skulum skoða nokkur atriði sem snúa að þjónustuskerðingu:
- Skólavistun verður ekki veitt í Brautarholti
- Bókasafn verður einungis í Brautarholti
- Tími meirihluta barna í skólabílum lengist
- Leikskólinn er lokaður 8 daga á vetri og oftast á fimmtudögum.
- Opnunardagar leikskóla eru færri næsta vetur en var síðasta vetur.
Í skýrlsu leikskólastjóra kom einnig fram að leikskólinn hefur verið undirmannaður að miklu leyti sl. mánuði. Þetta leiddi m.a. til þess að foreldrar voru hvattir til að taka börnin fyrr úr leikskóla einhverja daga þar sem ekki var unnt að halda starfseminni í eðlilegum gangi.
Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar fóru þeir listar sem nú mynda meirihluta mikinn og lofuðu og lofuðu. Akstur á leikskólabörnum og skólavistun í Brautarholti eru hvor tveggja mál sem búið er að svíkja og því verður fróðlegt að sjá til hvernig fer með önnur loforð í skólamálunum eins og samstarfs leikskóla og grunnskóla.
Ég hef skrifað nokkrar greinar um málefni Skeiða- og Gnúpverjahrepps og mig langar að benda á að sveitarstjórnarmenn hafa enn ekki séð ástæðu til að rengja neitt af því sem ég hef skrifað. Margir þeirra hafa hins vegar viðurkennt að þeir lesi skrif mín. Þögn er sama og samþykki.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.