Svar við bókun formanns skólanefndar

Á síðasta fundi skólanefndar svaraði formaður skólanefndar bókun minni frá því 07.06.2007, en þar gagnrýndi ég störf meirihlutans í skólanefnd og þá sérstaklega störf formanns. Þessi bókun formanns einkennist af upphrópunum án þess að rök séu færð fyrir málum, eins og vant er. Mig langar til að fara aðeins yfir bókun formannsins.

Varðandi fjölda funda skólanefndar segir formaður orðrétt í bókun sinni: " Í erindisbréfi fyrir skólanefnd er kveðið á um að haldnir skuli a.m.k. fjórir fundir í skólanefnd á starfsári skólans. Haldnir hafa verið fundir um leikskólamál í nóvember, desember, mars og er þessi fundur sá fjórði í röð á skólaárinu." Þrátt fyrir miklar breytingar í starfi leikskóla finn formanni nóg að halda fjóra fundi á árinu. Ástæður þess að ég vildi hitta skólanefnd og leikskólastjóra oftar, eða a.m.k. fyrr, eru margar en hér koma þær helstu.

  • Leikskólastjóri hefur bent á að leikskólinn hefur verið undirmannaður lengst af vetri.
  • Ekki er enn búið að afgreiða rekstraráætlun fyrir árið 2007
  • Verið er að endurbyggja húsnæði Brautarholtsskóla fyrir leikskólann og ég tel að skólanefnd eigi að hafa eftirlit með framkvæmdum
  • Ganga hefur þurft frá mannaráðningum t.d. í afleysingastarf leikskólastjóra

Að vilja ekki ræða þessi mál á vettvangi skólanefndar þykir mér bera vott um tómlæti.

Formaður segir einnig í bókun sinni:" Undirritaður hefur ekki séð ástæðu til að kalla saman
aukafundi til þess eins að flýta fyrir birting bókanna frá einstökum nefndarmönnum enda fylgir hverjum bókuðum fundi umtalsverður kostnaður
." Það er rétt að ég hef tvisvar farið fram á að haldnir verði fundir í skólanefnd. Í bæði skiptin hef ég haft samband við formann og rökstutt af hverju ég telji að boða ætti fund og hann í framhaldi samþykkt að boða fundina. Síðan hefur hann einfaldlega sleppt því. En þar sem formaður heldur núna að ég hafi ætlað að fá þessa fundi einungis til að "flýta fyrir birtingu bókana" þá er best að ég gefi öðrum upp ástæður þess að ég taldi að boða ætti skólanefndarfundi.
Í fyrra skiptið var um að ræða að oddviti, sveitarstjóri og formaður skólanefndar kynntu framtíðarstaðsetningu leikskólans þrátt fyrir að skólanefnd væri með málið í vinnslu og verið væri að fjalla um staðsetninguna í skólanefnd. Ég vildi því fá fund til að fá fram afstöðu skólanefndar eða hvort skólanefnd væri óþörf í ákvarðanaferlinu.
Í seinna skiptið sem ég fór fram á fund hafði mér borist til eyrna að erfitt væri að manna leikskólann, það hafi jafnvel komið fyrir að einungis hafi verið einn starfsmaður á vakt. Ég hafði líka lesið í fréttabréfi leikskólans að leikskólastjóri væri farin í fæðingarorlof og önnur tekin við, án þess að skólanefnd hafi nokkuð komið þar nærri. Í minni formannsins er þetta hins vegar orðið að "flýta fyrir bókunum".
Að taka ekki á þessum málum þegar á er bent þykir mér bera vott um tómlæti.

Formaður telur ekki vera svara vert að vera ásakaður um metnaðarleysi í málefnum leik- og grunnskóla. Hann bendir á umfangsmikla uppbyggingu á bættri aðstöðu fyrir bæði leik- og grunnskóla og endurnýjun tölvubúnaðar. Þarna má benda á að grunnskólinn minnkar að flatarmáli og ekki á að gera neinar endurbætur á húsnæði grunnskólans. Eins er ekki enn búið að ljúka frágangi á tölvukaupum þrátt fyrir að tilboð hafi borist sl. vetur. Hins vegar hefur sveitarstjórnin ekki sett neina stefnumörkun eða skólastefnu aðra en að flytja grunnskólan í Árnes.
Það er metnaðarleysi og eins er hægt að benda á tómlæti við afgreiðslu á tölvutilboðum.

Formaður lýkur bókun sinni með því að benda á að það eigi að vera forgangsmál skólanefndar að skapa nemendum og starfsmönnum góða starfsaðstöðu og jákvætt umhverfi. Það er ekki gert með því að hundsa umræðu um manneklu. Það er ekki gert með því að halda ekki fundi í skólanefndinni. Það er ekki gert með því að fylgjast ekki með fjármálum stofnana sveitarfélagsins. Þetta er tómlæti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jónas Yngvi Ásgrímsson
Jónas Yngvi Ásgrímsson

er framsóknarmaður búsettur í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og hefur skoðanir á málefnum sveitarinnar.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband