2.10.2008 | 18:29
Lausn allra okkar vandamála
Enn er þrætt um Evruna og Evrópusambandið. Getum við tekið upp Evru svo allt verði nú gott? Eigum við að ganga í Evrópusambandið? Tekur þetta okkur langan tíma? Verandi Íslendingar þá viljum við náttúrulega að allt taki sem skemmstan tíma, helst svona viku eða svo. En viti menn. Það er til lausn á öllu þessu. Stuttur tími, Evra, Evrópusambandið og allt verður dásamlegt.
Þeir setjast bara niður forsetinn og forsætisráðherrann og skrifa stutt bréf. Ég get meira að segja gefið þeim smá forskrift hérna:
Kæra Þórhildur drottning
Það virðist hafa komið upp einhver misskilningur þarna um árið og við allt í einu lent í þeim hremmingum að vera sjálfstæð þjóð með einhverja ríkisstjórn og alþingi og forseta og seðlabanka og íslenska krónu. Þetta átti náttúrulega aldrei að verða svona en það var bara eitthvað klúður. Það sjá það náttúrulega allir sem vilja sjá að 300.000 manns er allt of lítið til að teljast þjóð með öll þau hlutverk sem hún þarf að standa undir (alveg eins og við erum alltaf að segja sveitarfélögunum hérna). Nú er svo komið að þessi misskilningur hefur staðið yfir allt of lengi og því viljum við svo meget gjerne verða bara íslenskir danir aftur. Það má benda á að við erum komnir langt á veg með að verða dönsk þar sem það kostar álíka mikið að fljúga til Kaupmannahafnar og til Egilsstaða.
Jeres kammerater
Ólafur og Geir
Það er náttúrulega einfaldast að gerast dönsk nýlenda að nýju. Við erum komin inn í Evrópusambandið með det samme, krónan verður dönsk og tengd evru. Við þurfum ekki seðlabanka svo Davíð getur bara hætt að skemma stjórnast með gjaldmiðilinn. Dýralæknirinn getur bara snúið sér aftur að hestunum og ríkisstjórnin og alþingi og aðstoðarmennirnir geta komið út á vinnumarkaðinn og farið að vinna almenna launavinnu (þar sem kaupið má ekki hækka svo að þjóðarskútan sigli ekki í kaf).
(Ætli ég lendi í vondum málum við ÞÖ (þjóðaröryggislögguna hans Bjössa) útaf þessum pælingum mínum)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.