Jákvæð eða neikvæð niðurstaða?

Þær fréttir berast af fjármálum Skeiða- og Gnúpverjahrepps að mikill viðsnúningur hafi orðið í rekstri sveitarfélagsins sl. ár. Á heimasíðu sveitarfélagsins skrifar sveitarstjóri og gefur upp að rekstrarniðurstaða sé jákvæð, skuldir hafa lækkað og eignir aukist. Þetta er allt saman gott og vel en það verður nú samt að viðurkennast að skemmtilegt væri ef ástæður þessa alls veri bætt stjórnsýsla og þetta væri eitthvað varanlegt. Því miður bendir allt til þess að svo sé ekki. Ég hef bara heimasíðu sveitarfélagsins sem heimild auk vitnsekju um hvað hefur átt sér stað sl. ár auk þekkingar minnar á málefnum Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

Auknar tekjur

Hreppurinn seldi hús sl. ár. Bókfært verð hússins var einungis um 5 millj. en húsið seldist á 17,7 millj. mismunurinn eru tekjur. Hreppurinn seldi hlut í Límtré. Bókfærð virði hlutabréfanna var 17.709.000 sem er nafnverð. Bréfin seldust síðan á genginu 3,8 og var söluverð því 67.296.000 mismunirinn er tekjur. Einnig seldi hreppurinn aðra fasteign yfir matsverði. Tekjuaukning varð einnig þar sem hreppsnefndarmenn komust að því að heimild væri fyrir auknum fasteignagjöldum af virkjanamannvirkjum. Ég velti því hins vegar fyrir mér hversu lengi sveitarfélagið mátti innheimta þessi auknu fasteignagjöld. Að lokum var viðhaldi við þak félagsheimilisins Árness slegið á frest og þannig náðist að draga úr útgjöldum. Allt í allt þá er þarna um einnota tekjuaukningu að ræða þ.e. megnið af þessum tekjum eru tilkomnar með söluhagnaði á eignum og þær er ekki hægt að selja aftur. Ef söluhagnaður eigna er tekinn úr rekstrinum þá sést að sveitarfélagið var rekið með tapi enn eitt árið.

Aukning eigna

Sveitarstjórinn segir að á árinu 2006 hafi eignir aukist um 51,4 milljónir. Eins og ég sýndi hér að ofan þá voru eignir seldar langt yfir bókfærðu virði. Sem dæmi þá er söluhagnaður af hlutabréfum í Límtré rúmlega 49,5 milljónir. Eignaraukningin er því fyrst og fremst tilkomin vegna þess að eignir hafa verið vanmetnar í bókhaldi sveitarfélagsins.

Tapið framundan

Miklar framkvæmdir eru framundan í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Flytja á leikskólann úr sérhönnuðu húsnæði í gamla skólann í Brautarholti. Skólahúsið er á tveim hæðum og þarf talsverðar breytingar til að hægt verði að nota það sem leikskóla. Kostnaður hefur verið áætlaður rúmar 16 milljónir en gera má ráð fyrir að kostnaðurinn fari talsvert yfir 20 milljónir. Í framhaldi af þessu á að breyta leikskólahúsinu í bókasafn og má gera ráð fyrir talsverðum kostnaði vegna þeirra breytinga. Talsverðra breytinga er þörf í skólahúsnæðinu í Árnesi og talið er að sá kostnaður komi til með að hlaupa á tugum milljóna. Að auki verður viðhaldi á þaki Árness ekki frestað lengur. Athygli hefur vakið að ekki hafa verið gerðar kostnaðaráætlanir um þessi atriði eða leitað tilboða. Einungis var haft samband við nokkra iðnaðarmenn innan sveitarfélagsins og þeir beðnir um að skila útseldu tímaverði til sveitarstjórnar og síðan er einn valinn og hann virðist hafa nokkuð frjálsar hendur um tilhögun verksins.

Niðurstaða

Það er vanmáttug tilraun hjá sveitarstjóra að slá ryki í augu íbúa sveitarfélagsins með fyrirsögninni ”JÁKVÆÐ NIÐURSTAÐA” Í raun er niðurstaðan allt annað en jákvæð. Eignir voru seldar langt yfir bókfærðu virði, framkvæmdum slegið á frest, kostnaðaráætlanir ekki gerðar og tilboða ekki aflað í framkvæmdir. Að öllum líkindum verður sveitarstjórinn að birta grein á næsta ári undir fyrirsögninni ”NEIKVÆÐ NIÐURSTAÐA”.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jónas Yngvi Ásgrímsson
Jónas Yngvi Ásgrímsson

er framsóknarmaður búsettur í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og hefur skoðanir á málefnum sveitarinnar.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 381

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband