Trúnaðarmál?????

Ég hef fylgst með þessu rifrildi um að Alþingi hafi samþykkt að veita ungri stúlku ríkisborgararétt. Það er eitt atriði sem hefur vafist fyrir mér og enginn hefur svarað. Hvernig stendur á því að trúnaðargögn eins og umsókn um ríkisfang og fylgigögn rata í hendur fréttamanna? Hvar er trúnaðurinn og öryggið sem umsækjendur telja að sé til staðar? Héðan í frá getur enginn umsækjandi gert sér vonir um að gögn hans leki ekki til fréttamanna eða það sem alvarlegra er, til þeirra ríkja sem þeir eru að flýja. Ef hingað kemur pólitískur flóttamaður og sækir um ríkisfang má hann þá ekki gera ráð fyrir sömu meðferð hvað varðar hans gögn? Hér hefur trúnaður verið rofinn og það á mjög alvarlegan hátt.

Hvernig aflaði RÚV gagnanna? Greiddu þeir opinberum starfsmanni fyrir gögnin? Var þetta póitískur andstæðingur sem lak þeim? Kemst hver sem er í þessi gögn? Þessar og fleiri spurningar vakna þegar málið er skoðað.

Mér finnst alvarleikinn í því atriði svo mikill að ég tel að allir þeir sem hafa sótt um ríkisfang eða eiga eftir að sækja um ríkisfang, eigi heimtingu á að fram fari opinber rannsókn á því hvernig gögnin bárust til fréttastofu.


Jákvæð eða neikvæð niðurstaða?

Þær fréttir berast af fjármálum Skeiða- og Gnúpverjahrepps að mikill viðsnúningur hafi orðið í rekstri sveitarfélagsins sl. ár. Á heimasíðu sveitarfélagsins skrifar sveitarstjóri og gefur upp að rekstrarniðurstaða sé jákvæð, skuldir hafa lækkað og eignir aukist. Þetta er allt saman gott og vel en það verður nú samt að viðurkennast að skemmtilegt væri ef ástæður þessa alls veri bætt stjórnsýsla og þetta væri eitthvað varanlegt. Því miður bendir allt til þess að svo sé ekki. Ég hef bara heimasíðu sveitarfélagsins sem heimild auk vitnsekju um hvað hefur átt sér stað sl. ár auk þekkingar minnar á málefnum Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

Auknar tekjur

Hreppurinn seldi hús sl. ár. Bókfært verð hússins var einungis um 5 millj. en húsið seldist á 17,7 millj. mismunurinn eru tekjur. Hreppurinn seldi hlut í Límtré. Bókfærð virði hlutabréfanna var 17.709.000 sem er nafnverð. Bréfin seldust síðan á genginu 3,8 og var söluverð því 67.296.000 mismunirinn er tekjur. Einnig seldi hreppurinn aðra fasteign yfir matsverði. Tekjuaukning varð einnig þar sem hreppsnefndarmenn komust að því að heimild væri fyrir auknum fasteignagjöldum af virkjanamannvirkjum. Ég velti því hins vegar fyrir mér hversu lengi sveitarfélagið mátti innheimta þessi auknu fasteignagjöld. Að lokum var viðhaldi við þak félagsheimilisins Árness slegið á frest og þannig náðist að draga úr útgjöldum. Allt í allt þá er þarna um einnota tekjuaukningu að ræða þ.e. megnið af þessum tekjum eru tilkomnar með söluhagnaði á eignum og þær er ekki hægt að selja aftur. Ef söluhagnaður eigna er tekinn úr rekstrinum þá sést að sveitarfélagið var rekið með tapi enn eitt árið.

Aukning eigna

Sveitarstjórinn segir að á árinu 2006 hafi eignir aukist um 51,4 milljónir. Eins og ég sýndi hér að ofan þá voru eignir seldar langt yfir bókfærðu virði. Sem dæmi þá er söluhagnaður af hlutabréfum í Límtré rúmlega 49,5 milljónir. Eignaraukningin er því fyrst og fremst tilkomin vegna þess að eignir hafa verið vanmetnar í bókhaldi sveitarfélagsins.

Tapið framundan

Miklar framkvæmdir eru framundan í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Flytja á leikskólann úr sérhönnuðu húsnæði í gamla skólann í Brautarholti. Skólahúsið er á tveim hæðum og þarf talsverðar breytingar til að hægt verði að nota það sem leikskóla. Kostnaður hefur verið áætlaður rúmar 16 milljónir en gera má ráð fyrir að kostnaðurinn fari talsvert yfir 20 milljónir. Í framhaldi af þessu á að breyta leikskólahúsinu í bókasafn og má gera ráð fyrir talsverðum kostnaði vegna þeirra breytinga. Talsverðra breytinga er þörf í skólahúsnæðinu í Árnesi og talið er að sá kostnaður komi til með að hlaupa á tugum milljóna. Að auki verður viðhaldi á þaki Árness ekki frestað lengur. Athygli hefur vakið að ekki hafa verið gerðar kostnaðaráætlanir um þessi atriði eða leitað tilboða. Einungis var haft samband við nokkra iðnaðarmenn innan sveitarfélagsins og þeir beðnir um að skila útseldu tímaverði til sveitarstjórnar og síðan er einn valinn og hann virðist hafa nokkuð frjálsar hendur um tilhögun verksins.

Niðurstaða

Það er vanmáttug tilraun hjá sveitarstjóra að slá ryki í augu íbúa sveitarfélagsins með fyrirsögninni ”JÁKVÆÐ NIÐURSTAÐA” Í raun er niðurstaðan allt annað en jákvæð. Eignir voru seldar langt yfir bókfærðu virði, framkvæmdum slegið á frest, kostnaðaráætlanir ekki gerðar og tilboða ekki aflað í framkvæmdir. Að öllum líkindum verður sveitarstjórinn að birta grein á næsta ári undir fyrirsögninni ”NEIKVÆÐ NIÐURSTAÐA”.

 


Óafturkræft!!!

Það er eitt sem hafa þarf í huga þegar land er friðað, eða friðland er stækkað. Það er eiginlega ómögulegt að minnka friðland.

Hvað ef Þjórsárver eru að hopa. Ef þau eru að minnka og verða eftir 10-15 ár ekki nema svipur hjá sjón. Þá situm við uppi með friðaða sanda sem ekki má gera neitt við. Innan friðlanda má ekki veiða dýr enda lifa minkar og refir góðu lífi á friðlöndum en þeir virða ekki mörk friðlandsins þegar sækja á æti. Að auki þá valda þeir töluverðum usla í friðlandinu sjálfu.

Þeir sem mæla gegn virkjunum tala gjarnan um að þeir vilji nýta landið á sjálfbæran hátt. Ekki megi hafa nýtingarréttinn af afkomendum okkar með óafturkræfum aðgerðum. Það er sjálfsagt og eðlilegt að friða landssvæði en gætum þess að friðun er óafturkræf aðgerð og með friðun skerðum við einnig möguleika afkomenda okkar til að nýta landið í framtíðinni.


mbl.is Vilja að friðlandið í Þjórsárverum verði stækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er minni kjósenda virkilega svona lélegt?

Sjálfstæðisflokkurinn fær tæplega 41% atkvæða í Suðurkjördæmi skv. skoðanakönnun.  Þetta hlýtur því að vera sá flokkur sem kjósendur treysta best til verka og t.d. að fara með fjármuni Ríkissjóðs. Þetta segja menn þrátt fyrir að flokkurinn hafi hafið aftur til vegs og virðingar eina manninn sem hefur verið dæmdur fyrir að þiggja mútur í opinberu starfi og að draga að sér fjármuni sem honum var treyst fyrir af stjórnvöldum. Er minni kjósenda virkilega svona lélegt?

Að vísu verður að muna að Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi hafa bent kjósendum á að hægt sé að strika þennan frambjóðenda út og koma þannig í veg fyrir að hann komist á þing. Þetta segja þeir hins vegar einungis í orðræðum, maður á mann, þannig að erfitt er að herma þessi ummæli upp á þá.


mbl.is Sjálfstæðisflokkur bætir við sig tveimur þingmönnum í Suðurkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningar ..... en hvað svo????

Eftir mánuð verður kosið til Alþingis. Enn sem komið er eru fimm flokkar sem hafa af einhverri alvöru kynnt framboð en það eru Framsóknarflokkurinn, Frjálslyndi flokkurinn, Samfylking, Sjálfstæðismenn og Vinstri Grænir. Einnig hefur heyrst að til sé tveggja manna framboð sem heitir Íslandsflokkurinn og einhver samtök Reykvíkinga hafa spyrt sig við hóp eldri borgara. Ef skoðaðar eru kannanir í dag og þessi framboð, bæði framkomin og óskhyggjan, þá gæti verið gaman að spá í framhaldið. Hvað verður eftir kosningar. Til hliðsjónar hef ég könnun Gallup frá 5. apríl.

Sjálfstæðismenn verða stæsti flokkurinn með um 40% atkvæða og 27 þingmenn, Framsóknarflokkurinn fær um 8% og 5 menn, Samfylking fær 19,5% og 13 menn, Vinstri Grænir um 21% og 15 menn og loks Frjálslyndir með 5,4% og 3 þingmenn.

Hvernig stjórn verður hægt að mynda eftir kosningar? Jú samkvæmt þessu mun kaffibandalagið ekki geta tekið við stjórnartaumunum. Til þess er ekki meirihluti. VG og Samfylking hafa oft bent á að þeirra markmið sé að fella stjórnina og þannig í raun skikkað Framsókn og Sjálfst.fl. til að ræða saman eftir kosningar fái þeir til þess meirihluta.

Ef niðurstöður þessarar skoðunarkönnunar segir til um úrslit kosninganna er einnig ljóst að VG og Samfylking verða ekki saman í ríkisstjórn að afloknum kosningum. Til þess að það sé hægt þurfa flokkarnir á Framsókn að halda en þar sem kosningaslagorð VG er Zero Framsókn þá er ólíklegt að þeir vilji starfa með Framsóknarflokknum. Þannig hafa VG og Samfylking hamast við að gera sér dælt vð Sjálfstæðisflokkinn og í raun leitt hann í forystusætið að afloknum kosningum. Það hefur enda þótt undrun sæta að VG hefur lítið sem ekkert beitt sér gegn "höfuðandstæðingnum", Sjálfstæðisflokknum, heldur einbeitt sér að Framsóknarflokknum. 

Ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hefur gert margt gott sl. 12 ár. Á það ber líka að líta að nokkuð hefur mátt betur fara. Hins vegar er það nú þannig að ríkisstjórnin byggir á samstarfi og samningum. Það er því ljóst að þau góðu mál sem Framsóknarflokkurinn hefur komið í gegn eru einnig mál sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur komið í gegn og öfugt. Það er t.d. ekki Framsóknarflokknum einum að þakka að atvinnuástand á austurlandi er í blóma, og ekki er það Sjálfstæðisflokknum einum að þakka að ráðist verður í að tvöfalda þjóðveg 1 milli Selfoss og Reykjavíkur.  

Við Framsóknarmenn verðum að hafa þetta í huga þegar kosið verður eftir mánuð. Eina leiðin fyrir okkur til að hafa áhrif í framtíðinni er að koma sterkir út úr kosningunum.


Störf án staðsetningar!!!!

Fyrir rúmu ári síðan hóf ég störf hjá dk hugbúnaði. Starf mitt felst fyrst og fremst í símaþjónustu við viðskiptavini dk. Ég svara sem sagt í símann og reyni að greiða úr vandamálum sem upp kunna að koma.

Yfirmenn mínir voru framsýnir og leyfðu mér að skipta vinnunni þannig að ég þarf aðeins að keyra tvisvar í viku í Kópavog, hina dagana vinn ég heiman frá mér. Eina sem ég þarf er réttur hugbúnaður, nettenging og tölva. Með tölvunni kemst ég í samband við skiptiborðið hjá dk og get því stundað mína vinnu svo lengi sem ég næ þokkalegri nettengingu. Ég er sem sagt heima þegar börnin koma úr skólanum og að auki er vinnudagurinn tveim klukkustundum styttri þá daga sem ég þarf ekki að keyra í bæinn. Æji já, ég gleymdi að taka fram að ég bý í Skeiða- og Gnúpverjahrepp, í um klukkustundarakstri frá Reykjavík. Vinnuna stunda ég með dyggri aðstoð eMax og vinnutölvunnar.

Ég setti þessa punkta niður svona til að benda á að ekki er þörf á handafli stjórnmálamanna, eina sem við þurfum er að gera okkur grein fyrir möguleikunum og nýta þá.


Hvernig stendur kaffibandalagið?

Ég hef lesið greinar eftir Jón Kristófer Arnarson, bloggvin minn hér til hliðar, þar sem hann fjallar um Frjálslynda flokkinn. Samkvæmt skrifum Jóns þá hefur hann megnustu andstyggð á stefnumáli frjálslyndra þ.e. málefnum innflytjenda. Þrátt fyrir þessa skoðun Jóns þá eru VG og Samfylking í nokkurs konar kosningabandalagi með frjálslyndum, svokölluðu kaffibandalagi. Þessir flokkar hafa í það minnsta ákveðið að hefja viðræður um stjórnarsamstarf takist að fella stjórnina. Því spyr ég Jón: Ætla VG að halda kaffibandalaginu lifandi eða gera það sem Jóni finnst eðlilegt, að slíta þessu ímyndaða bandalagi?

Að virkja eða ekki virkja.....

Eru íbúar sveitarfélaganna við Þjórsá andvígir virkjunum í ánni?

Um þetta eru skiptar skoðanir og mörg gild rök bæði með og á móti. Mín skoðun er ekki enn fyllilega mótuð en ef ætti að kjósa núna þá myndi ég sennilega greiða atkvæði á móti virkjun. Mér finnst Landsvirkjun ekki hafa skýrt nægjanlega frá mögulegum áhrifum á grunnvatnsstöðu á neðanverðum Skeiðum og einnig hef ég ekki orðið var við að rætt hafi verið við landeigendur sem búa fjær Þjórsá en gæti mögulega misst land þegar Hvítá fer að gægjast upp hér og þar á landareignum þeirra. Málið er nefninlega að Hvítá rennur neðanjarðar í Þjórsá og ef mikið er í báðum ám hafa jarðir orðið að myndarlegum stöðuvötnum og tjörnum sem koma upp í gegnum hraunið.

Ég væri spenntur fyrir því að einhver fjölmiðillinn tæki sig nú til og gerði skoðunarkönnun í hreppunum sem eiga land að Þjórsá til að gefa einhverja mynd af fylgendum og andstæðingum.


mbl.is Íbúar við Þjórsá sendu Hafnfirðingum bréf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er blogg?

Ein besta lýsingin á bloggi er frá árinu 1968 og er eftirfarandi:

Words are flying out like endless rain into a paper cup
They slither while they pass.
They slip away across the universe. 


VG

Stóra spurningin fram að kosningum er með hverri Sjálfstæðisflokkurinn fer heim. Sumir segja það verða VG enda táknar skammstöfunin víst Vilja gera sama Gagn........

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jónas Yngvi Ásgrímsson
Jónas Yngvi Ásgrímsson

er framsóknarmaður búsettur í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og hefur skoðanir á málefnum sveitarinnar.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband