Verður Þjórsá virkjuð?

Það er nokkuð víst að hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps kemur til með að samþykkja virkjanir í Þjórsá. Til gamans ætla ég að velta upp hvernig atkvæðagreiðsla fer í hreppsnefndinni og ástæður fyrir því hvernig menn greiða atkvæði.

Gunnar Örn Marteinsson, oddviti, (A-listi) kemur til með að samþykkja virkjanir í Þjórsá. Gunnar hefur verið yfirlýstur stuðningsmaður virkjana og eitt af kosningamálum A-listans var stuðningur við virkjanir.
Ingvar Hjálmarsson, (A-listi) samþykkir sennilega líka. Hann er ekki þekktur fyrir að óhlýðnast Gunnari og fara gegn þeim línum sem settar eru af A-listanum.
Jón Vilmundarson, (L-lista) samþykkir virkjanir. Hjá honum er of mikið í húfi en talsvert land í hans eigu fer undir vatn, verði virkjað. Eina sem gæti breytt afstöðu Jóns er að hann fái ekki nægjanlega háa greiðslu fyrir landið. Jón getur samt ekki greitt atkvæði um virkjunina þar sem hann er vanhæfur. Þess má geta að eitt af stefnumálum L-listans var andstaða við virkjanir.
Tryggvi Steinarsson, (L-lista) greiðir atkvæði gegn virkjun. Tryggvi hefur verið andstæðingur virkjana í Þjórsá og fylgir þannig stefnu L-listans.
Björgvin Skafti Bjarnason, (E-lista) greiðir atkvæði gegn virkjun. E-listinn var hlynntur skynsamlegri nýtingu náttúrunnar en Skafti telur að ekki séu komin fullgild rök fyrir virkjun.

Samkvæmt þessu verður virkjað í Þjórsá. Hins vegar er Jón Vilmundarson það vanhæfur að kalla þarf inn varamann fyrir hann. Það mun því verða á valdi Hauks Haraldssonar hvort Skeiða- og Gnúpverjahreppur komi til með að samþykkja virkjanir í Þjórsá eða ekki.


Á að virkja í Þjórsá?

Það er dálítið merkilegt að fylgjast með umræðunni um hvort eigi eða eigi ekki að virkja í Þjórsá. Landsvirkjun telur nauðsynlegt að virkja og helst þarf að gera 3 virkjanir í ánni. Af þessum virkjunum eiga að skapast miklar tekjur og allt á að verða grænna og betra.

Í Skeiða- og Gnúpverjahreppi eru skiptar skoðanir um málið og má segja að menn skiptist í þrjár fylkingar. Sú sem hæst lætur eru náttúrulega virkjanaandstæðingar en þeir halda fundi, setja upp spjöld og skilti og skrifa greinar. Samkvæmt þeirra málflutningi er þarna um mikil náttúruauðæfi að ræða sem færu undir vatn. Að vísu er að mestu um ræktað land og mela að ræða, en sínum augum lítur hver á silfrið. Virkjanaandstæðingar hafa einnig fengið bandamann í lið með sér en það er umhverfisráðherra. Andstæðingar virkjana boðuðu til fundar og umhverfisráðherra sá sér fært að mæta á þann fund, enda líkur á að fjölmiðlar kæmu með myndavélar og hún fengi smá umfjöllun sem hægt væri að nýta í framtíðinni. Það eru hins vegar liðnir nokkrir mánuðir síðan hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps fór fram á fund með umhverfisráðherra en hún hefur ekki enn séð sér fært að svara hreppsnefndinni. Sennilega ekki eins fjölmiðlavænt.

Í sveitarfélaginu eru einnig nokkrir einstaklingar sem eru fylgjandi virkjunum. Þessir einstaklingar telja að virkjun lyfti atvinnulífinu upp og við fáum eitthvað endurgjald fyrir þau verðmæti sem vatnsaflið er. Þessi hópur er ekki eins hávær og andstæðingarnir en heyrist samt aðeins í þeim.

Síðan eru það þeir sem eru á báðum áttum. Finnst ekki nægjanleg rök hafa komið fram fyrir virkjun og ekki heldur gegn virkjun. Er fullrannsakað hvort ekki komi til með að koma vatn upp um hinar ýmsu hraunsprungur neðst í hreppnum? Fær Skeiða- og Gnúpverjahreppur einhverjar tekjur af fasteignagjöldum? Eru þetta virkilega einhverjar náttúruauðlindir sem færu undir lón? Er nauðsynlegt að virkja?


Samvera foreldra og barna

Á fundi skólanefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps sem haldinn var 18.12.2006 lagði Jóhannes Sigurðarson fram eftirfarandi tillögu:

Ég undirritaður legg til að á næsta skólaári verði vistunartími leikskólabarna ekki bundinn af að hafa fjóra daga vikunnar jafn langa. Eins og fyrirkomulag vistunartíma leikskólabarna er í dag er foreldrum skylt að greiða fyrir jafn marga tíma á dag fjóra daga vikunnar þ.e.a.s mánudaga til fimmtudaga þarf barnið að vera jafn langa daga. Ég undirritaður legg til að þessu verði breitt
þannig að henti vinnutíma eða milliferðatíma þeirra sjálfra. Þetta mundi sérstaklega nýtast foreldrum yngstu barnanna sem ekki geta eða vilja nýta sér milliferðabíl úr Árnesi í Brautarholt.Ég tel að þessi sveigjanleiki mundi frekar stuðla að styttri vistunartíma hjá börnunum og þar af leiðandi meiri samveru foreldra og barna.

Með samþykkt þessarar tillögu gerði skólanefndin sér vonir um að foreldrar gætu séð sér hag í að stytta vistunartíma barnanna þá daga sem færi gæfist vegna vinnu. Leikskólastjóri hefur margoft andmælt þessari tillögu og sendi m.a. erindi til sveitarstjórnar þar sem hún freistaði þess að hnekkja tillögunni en allt kom fyrir ekki. Á síðasta fundi skólanefndar sagði leikskólastjóri síðan að ef tillaga hennar um fjölgun skipulagsdaga yrði samþykkt þá myndi hún gangast undir að vinna eftir tillögu Jóhannesar.

Nú er leikskólinn að hefja starfssemi sína veturinn 2007 - 2008. Ekki hefur leikskólastjóri enn séð ástæðu til að kynna þessa samþykkt fyrir foreldrum í sveitarfélaginu. Sennilega verður þessari tilraun lokið áður en hún hefst sökum andstöðu leikskólastjóra.


Niðurgreidd fasteignagjöld

Samkvæmt frétt af heimasíðu Skeiða- og Gnúpverjahrepps og bloggi sveitarstjóra hefur sveitarstjórn ákveðið að styrkja fyrirtæki í Skeiða- og Gnúpverjahreppi til frekari markaðssetningar. Styrkurinn kemur til með að nema a.m.k. 20% af fasteignagjöldum atvinnuhúsnæðis viðkomandi (B stofn).

Sveitarfélagið styrkir ýmsa atvinnustarfssemi sérstaklega. Má þar nefna ferðamál, en Skeiða- og Gnúpverjahreppur stendur að rekstri skrifstofu ferðamálafulltrúa. Sauðfjárrækt en þar styrkir sveitarfélagið uppbyggingu og viðhald rétta ásamt með afréttarmálum o.fl. Í Skeiða- og Gnúpverjahreppi er hins vegar rekin annars konar starfssemi sem ekki kemur til með að njóta þessara styrkja. Verktakar í landbúnaði, húsasmiðir, rafvirkjar, skrifstofuþjónusta. Þetta er allt starfssemi sem kemur ekki til með að fá styrk til "markaðssetningar".

Í bókun Skeiða- og Gnúpverjahrepps er engin kvöð um að styrkurinn eigi að renna til markaðssetningar. Það er ekki kveðið á um að einhver eftirfylgni sé með í hverju styrknum skuli eytt. Spurningin er því af hverju var sveitarstjórnin að hækka gjöldin. Er það kannski til að ná inn auknum tekjum af þeim sem eiga atvinnuhúsnæði í sveitarfélaginu en greiða ekki útsvar hingað. Þar koma fyrst og fremst í hugann þeir einstaklingar sem keypt hafa jarðir í sveitarfélaginu sl. ár en ekki flutt hingað sjálfir. Það hlýtur að vera spurning um réttmæti þessarar ákvarðanar ef tekið er mið af jafnræðissjónarmiðum.


Svar við bókun formanns skólanefndar

Á síðasta fundi skólanefndar svaraði formaður skólanefndar bókun minni frá því 07.06.2007, en þar gagnrýndi ég störf meirihlutans í skólanefnd og þá sérstaklega störf formanns. Þessi bókun formanns einkennist af upphrópunum án þess að rök séu færð fyrir málum, eins og vant er. Mig langar til að fara aðeins yfir bókun formannsins.

Varðandi fjölda funda skólanefndar segir formaður orðrétt í bókun sinni: " Í erindisbréfi fyrir skólanefnd er kveðið á um að haldnir skuli a.m.k. fjórir fundir í skólanefnd á starfsári skólans. Haldnir hafa verið fundir um leikskólamál í nóvember, desember, mars og er þessi fundur sá fjórði í röð á skólaárinu." Þrátt fyrir miklar breytingar í starfi leikskóla finn formanni nóg að halda fjóra fundi á árinu. Ástæður þess að ég vildi hitta skólanefnd og leikskólastjóra oftar, eða a.m.k. fyrr, eru margar en hér koma þær helstu.

  • Leikskólastjóri hefur bent á að leikskólinn hefur verið undirmannaður lengst af vetri.
  • Ekki er enn búið að afgreiða rekstraráætlun fyrir árið 2007
  • Verið er að endurbyggja húsnæði Brautarholtsskóla fyrir leikskólann og ég tel að skólanefnd eigi að hafa eftirlit með framkvæmdum
  • Ganga hefur þurft frá mannaráðningum t.d. í afleysingastarf leikskólastjóra

Að vilja ekki ræða þessi mál á vettvangi skólanefndar þykir mér bera vott um tómlæti.

Formaður segir einnig í bókun sinni:" Undirritaður hefur ekki séð ástæðu til að kalla saman
aukafundi til þess eins að flýta fyrir birting bókanna frá einstökum nefndarmönnum enda fylgir hverjum bókuðum fundi umtalsverður kostnaður
." Það er rétt að ég hef tvisvar farið fram á að haldnir verði fundir í skólanefnd. Í bæði skiptin hef ég haft samband við formann og rökstutt af hverju ég telji að boða ætti fund og hann í framhaldi samþykkt að boða fundina. Síðan hefur hann einfaldlega sleppt því. En þar sem formaður heldur núna að ég hafi ætlað að fá þessa fundi einungis til að "flýta fyrir birtingu bókana" þá er best að ég gefi öðrum upp ástæður þess að ég taldi að boða ætti skólanefndarfundi.
Í fyrra skiptið var um að ræða að oddviti, sveitarstjóri og formaður skólanefndar kynntu framtíðarstaðsetningu leikskólans þrátt fyrir að skólanefnd væri með málið í vinnslu og verið væri að fjalla um staðsetninguna í skólanefnd. Ég vildi því fá fund til að fá fram afstöðu skólanefndar eða hvort skólanefnd væri óþörf í ákvarðanaferlinu.
Í seinna skiptið sem ég fór fram á fund hafði mér borist til eyrna að erfitt væri að manna leikskólann, það hafi jafnvel komið fyrir að einungis hafi verið einn starfsmaður á vakt. Ég hafði líka lesið í fréttabréfi leikskólans að leikskólastjóri væri farin í fæðingarorlof og önnur tekin við, án þess að skólanefnd hafi nokkuð komið þar nærri. Í minni formannsins er þetta hins vegar orðið að "flýta fyrir bókunum".
Að taka ekki á þessum málum þegar á er bent þykir mér bera vott um tómlæti.

Formaður telur ekki vera svara vert að vera ásakaður um metnaðarleysi í málefnum leik- og grunnskóla. Hann bendir á umfangsmikla uppbyggingu á bættri aðstöðu fyrir bæði leik- og grunnskóla og endurnýjun tölvubúnaðar. Þarna má benda á að grunnskólinn minnkar að flatarmáli og ekki á að gera neinar endurbætur á húsnæði grunnskólans. Eins er ekki enn búið að ljúka frágangi á tölvukaupum þrátt fyrir að tilboð hafi borist sl. vetur. Hins vegar hefur sveitarstjórnin ekki sett neina stefnumörkun eða skólastefnu aðra en að flytja grunnskólan í Árnes.
Það er metnaðarleysi og eins er hægt að benda á tómlæti við afgreiðslu á tölvutilboðum.

Formaður lýkur bókun sinni með því að benda á að það eigi að vera forgangsmál skólanefndar að skapa nemendum og starfsmönnum góða starfsaðstöðu og jákvætt umhverfi. Það er ekki gert með því að hundsa umræðu um manneklu. Það er ekki gert með því að halda ekki fundi í skólanefndinni. Það er ekki gert með því að fylgjast ekki með fjármálum stofnana sveitarfélagsins. Þetta er tómlæti.


Góð þjónusta?

Á heimasíðu Skeiða- og Gnúpverjahrepps er kominn nýr pistill frá sveitarstjóra. Þegar ég las skrifin fór ég að velta fyrir mér hvort hann hefði yfirleitt kynnt sér stöðu mála í sveitarfélaginu eða skrifaði greinar fyrst og fremst með Copy Paste aðferðinni. Ég ætla að skoða nánar greinina en hana kallar sveitarstjórinn "Góð þjónusta"

Í fyrsta hluta greinar sinnar fjallar hann um þær miklu breytingar sem verið er að gera á skólahúsnæðinu í Brautarholti. Breytingar sem valda því að hægt er að fjölga börnum svo voðalega mikið í leikskólanum. Að vísu kallar þessi fjölgun á að íbúar fáist til að flytja í sveitarfélagið en núverandi og fyrrverandi sveitarstjórnir hafa ekkert gert til að laða að íbúa. Hann bendir samt sem áður á að stóra vandamálið sé að erfitt sé að fá fólk til að vinna við leikskólann (og því verður erfitt að fjölga börnunum).

Næst tekur sveitarstjórinn sig til og afritar úr fundargerð skólanefndar hluta af skýrslu leikskólastjóra þar sem tekið er fram hversu góður leikskólinn sé.

  • Eins árs börnum veitt leikskólavist. Mikið rétt, og í sumum tilvikum hefur yngri börnum verið veitt leikskólapláss.  
  • Leikskólinn opnar kl. 7:30 á morgnana. Ekki rétt. Samkvæmt tillögu leikskólastjóra verður leikskólinn opnaður kl. 7:45 á morgnana og þau börn sem þurfa á skólaakstri að halda eiga að vera mætt kl. 09:00 í aksturinn 4 daga vikunnar. Leikskólinn lokar líka kl. 15:00 þrjá daga vikunnar hjá þeim sem njóta skólaaksturs. Hina dagana eiga foreldrarnir að sjá um aksturinn (þrátt fyrir loforð meirihlutans fyrir kosningar). Ég veit um foreldra sem gerðu ráð fyrir að áfram yrði opnað kl. 7:30 næsta vetur en verða nú að minnka við sig vinnu.
  • Systkinaafsláttur er 50%. Mikið rétt.
  • Upphaf og lok vistunartíma getur miðast við stundarfjórðung. Að vísu fer þarna dálítið eftir starfsmannahaldi.
  • 50% hlutfall fagmenntaðra. og fer minnkandi.
  • Öflugt og markvisst faglegt starf þar sem áherslan er lögð á þátttöku alls starfsfólks,  allt starfsfólk fær undirbúningstíma fyrir faglegt starf sem skilar sér í betra faglegra starfi fyrir börnin. Þessi undirbúningstími er hins vegar þannig að leikskólanum er lokað einn fimmtudagseftirmiðdag í mánuði (eini leikskólinn sem ég hef heyrt af) og því um þjónustuskerðingu að ræða.
  • Samstarf leik- og grunnskóla í góðum farvegi með vikulegum heimsóknum. Þetta er þó það atriði sem starfsfólk leikskólans taldi einna brýnast að bæta. Einnig ber að geta þess að það ríkir alger óvissa um hvernig tekst til næsta vetur þegar skóli og leikskóli verða flutt í sinn hvorn byggðarkjarnann.
  • Foreldrar geta haft vistunartíma á föstudögum öðruvísi. Ekki bara föstudögum heldur alla daga ef leikskólastjóri lætur af andstöðu sinni við ítrekaðar samþykktir skólanefndar.
  • Foreldrar eiga þess kost að hafa börnin sín í lengra sumarfríi án þess að þurfa að greiða fyrir leikskólaplássið. Hins vegar er leikskólinn lokaður í júlí og fram í ágúst. Þetta veldur því að foreldrar verða alltaf að taka sumarfrí á þessum tíma. Þannig háttar hins vegar á vinnustöðum að ekki er alltaf hægt að taka sumarfrí þegar öllum hentar og því eru dæmi þess að ekki næst að taka sumarfrí saman hjá allri fjölskyldunni. Og skárra væri það ef menn þyrftu að greiða fyrir þjónustu sem þeir nýta ekki. Þeir eru heldur ekki margir leikskólarnir á landinu sem loka í einn og hálfan mánuð.

Þetta er sem sagt ekki alls kostar rétt, og við skulum skoða nokkur atriði sem snúa að þjónustuskerðingu:

  • Skólavistun verður ekki veitt í Brautarholti
  • Bókasafn verður einungis í Brautarholti
  • Tími meirihluta barna í skólabílum lengist
  • Leikskólinn er lokaður 8 daga á vetri og oftast á fimmtudögum.
  • Opnunardagar leikskóla eru færri næsta vetur en var síðasta vetur.

Í skýrlsu leikskólastjóra kom einnig fram að leikskólinn hefur verið undirmannaður að miklu leyti sl. mánuði. Þetta leiddi m.a. til þess að foreldrar voru hvattir til að taka börnin fyrr úr leikskóla einhverja daga þar sem ekki var unnt að halda starfseminni í eðlilegum gangi.

Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar fóru þeir listar sem nú mynda meirihluta mikinn og lofuðu og lofuðu. Akstur á leikskólabörnum og skólavistun í Brautarholti eru hvor tveggja mál sem búið er að svíkja og því verður fróðlegt að sjá til hvernig fer með önnur loforð í skólamálunum eins og samstarfs leikskóla og grunnskóla.

Ég hef skrifað nokkrar greinar um málefni Skeiða- og Gnúpverjahrepps og mig langar að benda á að sveitarstjórnarmenn hafa enn ekki séð ástæðu til að rengja neitt af því sem ég hef skrifað. Margir þeirra hafa hins vegar viðurkennt að þeir lesi skrif mín. Þögn er sama og samþykki.


Að loknum skólanefndarfundi

Þann 26.06. var haldinn skólanefndarfundur varðandi málefni leikskólans. Fundarboð barst með pósti þann 25. og var það þannig að sumir fundarmenn voru ekki enn búnir að opna póstinn þegar fundurinn hófst. Leikskólastjóri kynnti ársskýrslu sína og var hún um margt áhugaverð. Ljóst er að vel er staðið að faglegum málefnum leikskólans og eru krakkarnir okkar heppin með starfsfólk, bæði faglært og ófaglært. Það eru þó nokkur atriði sem ég hnaut um og vildi fá nánari skýringar á. Í upptalningu um starfsfólk kemur fram að staða leikskólastjóra er reiknuð 100% og skiptist þannig að 10% stöðuhlutfall er við kennslu en 90% er við stjórnun. Satt best að segja þá finnst mér hlutfall í stjórnun talsvert hátt. Ég tók mér það bessaleyfi að bera þetta saman við skólastjóra í Þjórsárskóla sl. vetur en hennar hlutfall í kennslu var eitthvað um 36%. Mér finnast það vera undarleg fræði ef leikskólastjóri er ráðinn í 90% stjórnun yfir 33 börnum og 8 starfsmönnum meðan stjórnunarstaða skólastjóra telst vera 64% í 62 barna og 14 starfsmanna skóla. Einhversstaðar hefur einhver samið af sér. Ég hef einnig verið að velta fyrir mér aukningu á stöðugildi í eldhúsi við það eitt að grunnskólinn fari (27 börn og 5 starfsmenn) fari og eftir verði leikskólinn, en hann fékk sinn mat frá mötuneyti skólans. Stöðugildi eykst úr 1,3 í 1,5.  Þegar ég hafði samband við leikskóla í Kópavogi fékk ég þær upplýsingar að hjá þeim væru stöðugildin í eldhúsi 1,6 (94 börn og 30 starfsmenn).

Næsta mál á dagskrá var áætlun leikskólaárið 2007-2008. Í stuttu máli kemur það þarna fram að leikskólinn fjölgar starfsdögum úr 4 í 6 á komandi vetri. Eins og svo fallega var bent á þá á að "fella saman starfsdaga og vinnufundi til þess að spara fyrir sveitarfélagið" Það er ekki bent á að þarna er um að ræða skerðingu á þjónustu við íbúana. Leikskólastjóri heldur fjögurra klukkustunda vinnufundi í hverjum mánuði og vill gjarnan halda þá á vinnutíma. Ég veit ekki hvernig þessi mál eru leyst hjá öðrum leikskólum en mér er það til efs að loka þurfi leikskólum í einhverja klukkutíma á mánuði vegna fundarhalda. Ég þekki þó vel til á einum leikskóla á höfuðborgarsvæðinu og þar eru starfsmannafundir haldnir á kvöldin. Ég greiddi atkvæði gegn þessari tillögu.

Næsti liður fjallaði um akstur leikskólabarna og þar var tilkynnt að samið hefði verið við Bjarna Ófeig Valdimarsson um aksturinn en staðan ekki auglýst. (þess má geta að 20.ágúst 2002 samþykkti skólanefnd að auglýsa öll störf). Ekki liggur nákvæmlega fyrir hvernig akstrinum verður háttað en þó er ljóst að einungis verður ekið 4 morgna í leikskólann og 2-3 eftirmiðdaga heim aftur.

Í dagskrárliðnum starfsmannamál kom formaður skólanefndar með tillögu þess efnis að skólanefnd afsali sér því hlutverki sínu að fjalla um ráðningar starfsmanna, sem henni er sett í skipunarbréfinu. Ég sat hjá við þessa afgreiðslu þar sem ég er ekki viss um að skólanefndin geti afsalað sér hlutverki sem hún á að sinna. Forsendurnar sem formaður gaf upp voru þær helstar að það væri ekki hægt að kalla saman fund í hvert skipti sem ráða þurfi nýjan starfsmann. Greinilega er starfsmannavelta umtalsverð. Þetta sagði hann líka að tíðkaðist í grunnskólanum. Það er þó ekki alls kostar rétt hjá honum þar sem skólastjóri ber allar ráðningar undir skólanefnd sbr. fundargerð.

Bókunum formanns skólanefndar og leikskólastjóra verður svarað síðar á þessum vettvangi.

Í fundarlok spurðist ég fyrir um nokkur málefni sem hafa dagað uppi, þ.e. var frestað á fundum en hafa ekki verið tekin upp aftur. Fyrsta málið sem ég spurði um varðaði fundargerð 18.12.2006en þar var kynnt að farið yrði yfir rekstrarliði ársins 2007 á næsta fundi. Leikskólastjóri sagði rekstraráætlanir og fjármál ekki vera í sínum verkahring og svar formanns var ekki samkvæmt bókuninni í fundargerð 18.12.2006.

Í fundargerð 26.03.2007 var samþykkt að fela formanni skólanefndar, leikskólastjóra og sveitarstjóra að forgangsraða framkvæmdum vegna athugasemda Brunavarna Árnessýslu. Formaður sagði að ekki hefði verið fundað um þetta mál.
Í sömu fundargerð kom fram að lækka ætti mötuneytiskostnað vegna breytingar á virðisaukaskatti og sagði leikskólastjóri að sú lækkun væri komin fram.
Aðspurður sagði formaður að lækkun á kostnaðarþátttöku biði ákvarðana ríkisstjórnar um þátttöku í kostnaði við leikskólahald.
Þegar ég spurði formann um af hverju tillaga sem ég bar upp á síðasta fundi væri ekki tekin til afgreiðslu var svar hans að honum fyndist tillagan svo fíflaleg að hann ætlaði ekki að taka hana fyrir.

Þegar þarna var komið við sögu var mér farið að ofbjóða svo mikið vinnubrögð formanns að ég yfirgaf fundinn.


Það er ekki alltaf hægt að standa við það sem maður lofar!

Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar lofuðu þeir listar sem nú mynda meirihluta í Skeiða- og Gnúpverjahreppi að reyna að hafa skólavistun í Brautarholti, þrátt fyrir að ekki ætti að vera skólahald þar. Þegar meirihlutinn var minntur á þetta á síðasta skólanefndarfundi sagði einn fulltrúi meirihlutans þessa fleygu setningu: "Það er ekki alltaf hægt að standa við það sem maður lofar". Eftir að þetta var sagt þá hef ég dálítið velt fyrir mér hvernig staðið er að loforðum stjórnmálamanna. Eru þau bara djók?

Á þessum fundi kom einnig annað merkilegt fram. Sveitarstjóri tilkynnti okkur að á fundi hans og oddvita hefði verið ákveðið að fresta að setja neyðarútganga í skólastofurnar í skólahúsnæðið í Árnesi. Tími til framkvæmda væri of naumur. Skólanefnd hafnaði þessu og fór fram á að öryggismál yrðu í forgangi þegar framkvæmdir sumarsins væru ákveðnar.

Sama var uppi á borðum þegar fjallað var um skólaakstur. Síðasta vetur setti skólanefnd reglur um öryggisbúnað í skólabílum. Skólanefnd lagði á það áherslu að einungis yrði samið við þá bílstjóra sem hafa útbúið bíla sína samkvæmt þessum reglum.

Frá því í apríl hef ég óskað eftir fundi í skólanefnd, bæði með símtali við formann og einnig með tölvupósti til sveitarstjóra. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir þá hefur ekki verið haldinn fundur í skólanefnd vegna leikskólamála frá því í mars. Á þessum tíma eru samt miklar framkvæmdir í gangi, verið er að breyta húsnæði fyrir leikskólann og einnig hefur verið talsvert um mannaráðningar, allt málefni sem skólanefnd bera að hafa eftirlit með.

Eins og ég hef áður bent á þá er metnaður formanns fyrir starfi skólanefndar enginn. Með áhugaleysi sínu hefur hann gert öðrum í skólanefnd erfitt að gegna skyldum sínum. Hlutverk skólanefndar er mikið en ef skólanefnd starfar ekki þá er stjórnendum skólanna gert erfiðara fyrir að sinna sínu starfi.


Strúta - sveitarstjórn

Það er gaman að skoða blogg sem tengjast sveitinni minni, Skeiða- og Gnúpverjahrepp. Sem dæmi má nefna að sveitarstjórinn, Sigurður Jónsson, heldur úti bloggsíðu. Það er hins vegar dálítið merkilegt að á þessari bloggsíðu er hann fyrst og fremst að skrifa um málefni tengd Reykjanesi en örsjaldan er skrifað um Skeiða- og Gnúpverjahrepp. Hann setur að vísu stundum pistla á heimasíðu sveitarfélagsins, og vil ég gera einn þeirra að umræðuefni.

Í síðasta pistli sínum skrifar hann m.a. um ársreikning Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Ársreikningurinn núna er sá fyrsti sem skilar tekjuafgangi frá því að sveitarfélagið var stofnað. Orðrétt segir sveitarstjórinn síðan. "Eins og fram hefur komið lítur ársreikningurinn ágætlega út, sem má að miklu leyti skýra út með sölu fasteigna og hlutabréfa ásamt því að lítið var um framkvæmdir á árinu." Sem sagt: Við stóðum okkur vel. Við seldum frá okkur eignir og fengum söluhagnað og drógum úr framkvæmdum. Sveitarstjórinn tekur ekki fram að stórum framkvæmdum var frestað til þessa árs. Að auki kemur sveitarfélagið til með að hefja framkvæmdir við breytingar á húsum fyrir tugi milljóna. Þetta hef ég áður bent á og enginn mótmælt. Annað sem sveitarstjórinn segir ekki í pistli sínum er að söluhagnaðurinn af hlutabréfum í Límtré átti að renna til atvinnuuppbyggingar í sveitarfélaginu og því ljóst að ekki er hægt að nota þá peninga til framkvæmda. Það er því ljóst að Skeiða- og Gnúpverjahreppur kemur til með að vera rekinn með miklum halla á þessu ári.

Komandi hallarekstur kemur fyrst og fremst til með að myndast vegna lélegrar fjármálastjórnar sveitarstjórnar. Sem dæmi um fjármálastjórnina er hægt að benda á að sveitarstjórnin hefur lagt útí framkvæmdir fyrir tugi milljóna án þess að gera fjárhagsáætlun eða framkvæmdaáætlun. Meirihlutinn veit uppá sig sökina enda svara þeir fyrirspurnum í engu og stinga bara höfðinu í sandinn. Sennilega væri réttast að kalla þessa sveitarstjórn strútana.


Minning

Í dag var síðasti kennsludagurinn í Brautarholtsskóla. Því lýkur nú rekstri grunnskóla í Brautarholti. Brautarholtsskóli var teiknaður af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins, og hófst bygging skólans árið 1933. Skólinn var byggður af íbúum Skeiðahrepps og lögðu þar allir þeir sem gátu hönd á plóginn og var skólahúsið reist með samstilltu átaki Skeiðamanna. Skólahúsið hefur tekið breytingum síðan þetta var, byggt var við skólann 1983 og síðar eftir suðurlandsskjálftann árið 2000.

Það er hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps sem tók þá ákvörðun að legga niður Brautarholtsskóla sem grunnskóla. Ástæður hreppsnefndar eru óljósar fullyrðingar um sparnað en oft hefur verið sýnt fram á að með flutningi skólans næst ekki sparnaður heldur verður um kostnaðaraukningu að ræða. Skólaakstur kemur til með að aukast en annar kostnaður mun verða óbreyttur. Þær breytingar sem gera þarf á húsnæðum til að ný starfssemi rúmist í þeim koma þar að auki til með að hlaupa á tugum milljóna. Að vísu er erfitt að gera sér grein fyrir kostnaðnum þar sem engar áætlanir hafa verið gerðar og eftirlit er ekkert.

Metnaðarleysi sveitarstjórnar í menntamálum barna í Skeiða- og Gnúpverjahreppi endurspeglast í bókun formanns skólanefndar, Jóns Vilmundarsonar, frá því 12.07.2006 en þar var bókuð skólastefna sveitarstjórnar og er hún eftirfarandi: "Formaður greinir frá því að á sveitastjórnarfundi 20.06.2006. var ákveðið að fresta flutningi grunnskólans í Árnes til haustsins 2007"

Það verður svo sagan sem dæmir þessi verk sveitarstjórnar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jónas Yngvi Ásgrímsson
Jónas Yngvi Ásgrímsson

er framsóknarmaður búsettur í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og hefur skoðanir á málefnum sveitarinnar.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband