21.1.2009 | 23:18
Stórhuga sveitarfélag
Fyrir nokkrum árum sameinuðust Skeiðahreppur og Gnúpverjahreppur. Þessi sameining var orðin löngu tímabær en því miður var hún ekki nægjanlega stór. Ekki var haft samband við Hrunamenn og því fór það þannig að til varð Skeiða- og Gnúpverjahreppur.
Í fyrstu var hreppurinn rekinn þannig að þær stofnanir sem þar voru héldu sér óbreyttar en að lokum var grunnskólinn fluttur í Árnes og leikskólinn fluttur í Brautarholt. Þessir flutningar á skóla voru umdeildir í sveitarfélaginu og má segja að fylkingar hafi skipst eftir gömlu hreppamörkunum. Þegar grunnskólinn var fluttur úr Brautarholti var m.a. bent á sem röksemd fyrir að halda honum þar að þar væri nýbyggður íþróttasalur í stað þess gamla sem eyðilagðist í jarðskjálftanum árið 2000.
Grunnskólamálin voru kosningamál í síðustu sveitarstjórnarkosningum og í kosningabaráttunni var núverandi meirihluta bent á að flutningur skólans væri óhagkvæmur þar sem aðstaða til íþróttaiðkunar, sunds og mötuneytis væri þar öll til fyrirmyndar en því væri ekki að heilsa í Árnesi. Núverandi meirihluti benti þá á salinn sem væri í Árnesi í um 600 metra fjarlægð frá skólanum en þar væri bæði mötuneyti og íþróttaaðstaða. Þeim var bent á að á kjörtímabilinu myndu þeir líklega leggja til byggingu íþróttasalar en mótrök þeirra voru að slík eyðsla yrði ekki.
Núna er sveitarstjórn búin að samþykkja að leigja Landsvirkjun salinn í Árnesi til 10 ára. Fyrir þetta fær sveitarfélagið 85 milljónir. Strax eftir þessa samþykkt föttuðu sveitarstjórnarmenn meirihlutans að þeir væru búnir að leigja frá sér íþróttaaðstöðu skólans og mötuneytið. En lausnin var fljótfundin. Bara að byggja nýjan sal. Kostnaður verður sennilega ekki undir 200 milljónum en hvað er það í svona góðæri. Hugsunin er talsvert 2007. Þegar leigutíma lýkur þá er þetta 500 manna sveitarfélag með þrjú íþróttahús, 187 íbúar á hvert hús.
Næsta mál á dagskrá verður að byggja þyrlupall í Árnesi svo sveitarfélagið geti keypt eitthvað af góðæris þyrlunum á brunaútsölunni.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.