Færsluflokkur: Bloggar

Góð þjónusta?

Á heimasíðu Skeiða- og Gnúpverjahrepps er kominn nýr pistill frá sveitarstjóra. Þegar ég las skrifin fór ég að velta fyrir mér hvort hann hefði yfirleitt kynnt sér stöðu mála í sveitarfélaginu eða skrifaði greinar fyrst og fremst með Copy Paste aðferðinni. Ég ætla að skoða nánar greinina en hana kallar sveitarstjórinn "Góð þjónusta"

Í fyrsta hluta greinar sinnar fjallar hann um þær miklu breytingar sem verið er að gera á skólahúsnæðinu í Brautarholti. Breytingar sem valda því að hægt er að fjölga börnum svo voðalega mikið í leikskólanum. Að vísu kallar þessi fjölgun á að íbúar fáist til að flytja í sveitarfélagið en núverandi og fyrrverandi sveitarstjórnir hafa ekkert gert til að laða að íbúa. Hann bendir samt sem áður á að stóra vandamálið sé að erfitt sé að fá fólk til að vinna við leikskólann (og því verður erfitt að fjölga börnunum).

Næst tekur sveitarstjórinn sig til og afritar úr fundargerð skólanefndar hluta af skýrslu leikskólastjóra þar sem tekið er fram hversu góður leikskólinn sé.

  • Eins árs börnum veitt leikskólavist. Mikið rétt, og í sumum tilvikum hefur yngri börnum verið veitt leikskólapláss.  
  • Leikskólinn opnar kl. 7:30 á morgnana. Ekki rétt. Samkvæmt tillögu leikskólastjóra verður leikskólinn opnaður kl. 7:45 á morgnana og þau börn sem þurfa á skólaakstri að halda eiga að vera mætt kl. 09:00 í aksturinn 4 daga vikunnar. Leikskólinn lokar líka kl. 15:00 þrjá daga vikunnar hjá þeim sem njóta skólaaksturs. Hina dagana eiga foreldrarnir að sjá um aksturinn (þrátt fyrir loforð meirihlutans fyrir kosningar). Ég veit um foreldra sem gerðu ráð fyrir að áfram yrði opnað kl. 7:30 næsta vetur en verða nú að minnka við sig vinnu.
  • Systkinaafsláttur er 50%. Mikið rétt.
  • Upphaf og lok vistunartíma getur miðast við stundarfjórðung. Að vísu fer þarna dálítið eftir starfsmannahaldi.
  • 50% hlutfall fagmenntaðra. og fer minnkandi.
  • Öflugt og markvisst faglegt starf þar sem áherslan er lögð á þátttöku alls starfsfólks,  allt starfsfólk fær undirbúningstíma fyrir faglegt starf sem skilar sér í betra faglegra starfi fyrir börnin. Þessi undirbúningstími er hins vegar þannig að leikskólanum er lokað einn fimmtudagseftirmiðdag í mánuði (eini leikskólinn sem ég hef heyrt af) og því um þjónustuskerðingu að ræða.
  • Samstarf leik- og grunnskóla í góðum farvegi með vikulegum heimsóknum. Þetta er þó það atriði sem starfsfólk leikskólans taldi einna brýnast að bæta. Einnig ber að geta þess að það ríkir alger óvissa um hvernig tekst til næsta vetur þegar skóli og leikskóli verða flutt í sinn hvorn byggðarkjarnann.
  • Foreldrar geta haft vistunartíma á föstudögum öðruvísi. Ekki bara föstudögum heldur alla daga ef leikskólastjóri lætur af andstöðu sinni við ítrekaðar samþykktir skólanefndar.
  • Foreldrar eiga þess kost að hafa börnin sín í lengra sumarfríi án þess að þurfa að greiða fyrir leikskólaplássið. Hins vegar er leikskólinn lokaður í júlí og fram í ágúst. Þetta veldur því að foreldrar verða alltaf að taka sumarfrí á þessum tíma. Þannig háttar hins vegar á vinnustöðum að ekki er alltaf hægt að taka sumarfrí þegar öllum hentar og því eru dæmi þess að ekki næst að taka sumarfrí saman hjá allri fjölskyldunni. Og skárra væri það ef menn þyrftu að greiða fyrir þjónustu sem þeir nýta ekki. Þeir eru heldur ekki margir leikskólarnir á landinu sem loka í einn og hálfan mánuð.

Þetta er sem sagt ekki alls kostar rétt, og við skulum skoða nokkur atriði sem snúa að þjónustuskerðingu:

  • Skólavistun verður ekki veitt í Brautarholti
  • Bókasafn verður einungis í Brautarholti
  • Tími meirihluta barna í skólabílum lengist
  • Leikskólinn er lokaður 8 daga á vetri og oftast á fimmtudögum.
  • Opnunardagar leikskóla eru færri næsta vetur en var síðasta vetur.

Í skýrlsu leikskólastjóra kom einnig fram að leikskólinn hefur verið undirmannaður að miklu leyti sl. mánuði. Þetta leiddi m.a. til þess að foreldrar voru hvattir til að taka börnin fyrr úr leikskóla einhverja daga þar sem ekki var unnt að halda starfseminni í eðlilegum gangi.

Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar fóru þeir listar sem nú mynda meirihluta mikinn og lofuðu og lofuðu. Akstur á leikskólabörnum og skólavistun í Brautarholti eru hvor tveggja mál sem búið er að svíkja og því verður fróðlegt að sjá til hvernig fer með önnur loforð í skólamálunum eins og samstarfs leikskóla og grunnskóla.

Ég hef skrifað nokkrar greinar um málefni Skeiða- og Gnúpverjahrepps og mig langar að benda á að sveitarstjórnarmenn hafa enn ekki séð ástæðu til að rengja neitt af því sem ég hef skrifað. Margir þeirra hafa hins vegar viðurkennt að þeir lesi skrif mín. Þögn er sama og samþykki.


Að loknum skólanefndarfundi

Þann 26.06. var haldinn skólanefndarfundur varðandi málefni leikskólans. Fundarboð barst með pósti þann 25. og var það þannig að sumir fundarmenn voru ekki enn búnir að opna póstinn þegar fundurinn hófst. Leikskólastjóri kynnti ársskýrslu sína og var hún um margt áhugaverð. Ljóst er að vel er staðið að faglegum málefnum leikskólans og eru krakkarnir okkar heppin með starfsfólk, bæði faglært og ófaglært. Það eru þó nokkur atriði sem ég hnaut um og vildi fá nánari skýringar á. Í upptalningu um starfsfólk kemur fram að staða leikskólastjóra er reiknuð 100% og skiptist þannig að 10% stöðuhlutfall er við kennslu en 90% er við stjórnun. Satt best að segja þá finnst mér hlutfall í stjórnun talsvert hátt. Ég tók mér það bessaleyfi að bera þetta saman við skólastjóra í Þjórsárskóla sl. vetur en hennar hlutfall í kennslu var eitthvað um 36%. Mér finnast það vera undarleg fræði ef leikskólastjóri er ráðinn í 90% stjórnun yfir 33 börnum og 8 starfsmönnum meðan stjórnunarstaða skólastjóra telst vera 64% í 62 barna og 14 starfsmanna skóla. Einhversstaðar hefur einhver samið af sér. Ég hef einnig verið að velta fyrir mér aukningu á stöðugildi í eldhúsi við það eitt að grunnskólinn fari (27 börn og 5 starfsmenn) fari og eftir verði leikskólinn, en hann fékk sinn mat frá mötuneyti skólans. Stöðugildi eykst úr 1,3 í 1,5.  Þegar ég hafði samband við leikskóla í Kópavogi fékk ég þær upplýsingar að hjá þeim væru stöðugildin í eldhúsi 1,6 (94 börn og 30 starfsmenn).

Næsta mál á dagskrá var áætlun leikskólaárið 2007-2008. Í stuttu máli kemur það þarna fram að leikskólinn fjölgar starfsdögum úr 4 í 6 á komandi vetri. Eins og svo fallega var bent á þá á að "fella saman starfsdaga og vinnufundi til þess að spara fyrir sveitarfélagið" Það er ekki bent á að þarna er um að ræða skerðingu á þjónustu við íbúana. Leikskólastjóri heldur fjögurra klukkustunda vinnufundi í hverjum mánuði og vill gjarnan halda þá á vinnutíma. Ég veit ekki hvernig þessi mál eru leyst hjá öðrum leikskólum en mér er það til efs að loka þurfi leikskólum í einhverja klukkutíma á mánuði vegna fundarhalda. Ég þekki þó vel til á einum leikskóla á höfuðborgarsvæðinu og þar eru starfsmannafundir haldnir á kvöldin. Ég greiddi atkvæði gegn þessari tillögu.

Næsti liður fjallaði um akstur leikskólabarna og þar var tilkynnt að samið hefði verið við Bjarna Ófeig Valdimarsson um aksturinn en staðan ekki auglýst. (þess má geta að 20.ágúst 2002 samþykkti skólanefnd að auglýsa öll störf). Ekki liggur nákvæmlega fyrir hvernig akstrinum verður háttað en þó er ljóst að einungis verður ekið 4 morgna í leikskólann og 2-3 eftirmiðdaga heim aftur.

Í dagskrárliðnum starfsmannamál kom formaður skólanefndar með tillögu þess efnis að skólanefnd afsali sér því hlutverki sínu að fjalla um ráðningar starfsmanna, sem henni er sett í skipunarbréfinu. Ég sat hjá við þessa afgreiðslu þar sem ég er ekki viss um að skólanefndin geti afsalað sér hlutverki sem hún á að sinna. Forsendurnar sem formaður gaf upp voru þær helstar að það væri ekki hægt að kalla saman fund í hvert skipti sem ráða þurfi nýjan starfsmann. Greinilega er starfsmannavelta umtalsverð. Þetta sagði hann líka að tíðkaðist í grunnskólanum. Það er þó ekki alls kostar rétt hjá honum þar sem skólastjóri ber allar ráðningar undir skólanefnd sbr. fundargerð.

Bókunum formanns skólanefndar og leikskólastjóra verður svarað síðar á þessum vettvangi.

Í fundarlok spurðist ég fyrir um nokkur málefni sem hafa dagað uppi, þ.e. var frestað á fundum en hafa ekki verið tekin upp aftur. Fyrsta málið sem ég spurði um varðaði fundargerð 18.12.2006en þar var kynnt að farið yrði yfir rekstrarliði ársins 2007 á næsta fundi. Leikskólastjóri sagði rekstraráætlanir og fjármál ekki vera í sínum verkahring og svar formanns var ekki samkvæmt bókuninni í fundargerð 18.12.2006.

Í fundargerð 26.03.2007 var samþykkt að fela formanni skólanefndar, leikskólastjóra og sveitarstjóra að forgangsraða framkvæmdum vegna athugasemda Brunavarna Árnessýslu. Formaður sagði að ekki hefði verið fundað um þetta mál.
Í sömu fundargerð kom fram að lækka ætti mötuneytiskostnað vegna breytingar á virðisaukaskatti og sagði leikskólastjóri að sú lækkun væri komin fram.
Aðspurður sagði formaður að lækkun á kostnaðarþátttöku biði ákvarðana ríkisstjórnar um þátttöku í kostnaði við leikskólahald.
Þegar ég spurði formann um af hverju tillaga sem ég bar upp á síðasta fundi væri ekki tekin til afgreiðslu var svar hans að honum fyndist tillagan svo fíflaleg að hann ætlaði ekki að taka hana fyrir.

Þegar þarna var komið við sögu var mér farið að ofbjóða svo mikið vinnubrögð formanns að ég yfirgaf fundinn.


Það er ekki alltaf hægt að standa við það sem maður lofar!

Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar lofuðu þeir listar sem nú mynda meirihluta í Skeiða- og Gnúpverjahreppi að reyna að hafa skólavistun í Brautarholti, þrátt fyrir að ekki ætti að vera skólahald þar. Þegar meirihlutinn var minntur á þetta á síðasta skólanefndarfundi sagði einn fulltrúi meirihlutans þessa fleygu setningu: "Það er ekki alltaf hægt að standa við það sem maður lofar". Eftir að þetta var sagt þá hef ég dálítið velt fyrir mér hvernig staðið er að loforðum stjórnmálamanna. Eru þau bara djók?

Á þessum fundi kom einnig annað merkilegt fram. Sveitarstjóri tilkynnti okkur að á fundi hans og oddvita hefði verið ákveðið að fresta að setja neyðarútganga í skólastofurnar í skólahúsnæðið í Árnesi. Tími til framkvæmda væri of naumur. Skólanefnd hafnaði þessu og fór fram á að öryggismál yrðu í forgangi þegar framkvæmdir sumarsins væru ákveðnar.

Sama var uppi á borðum þegar fjallað var um skólaakstur. Síðasta vetur setti skólanefnd reglur um öryggisbúnað í skólabílum. Skólanefnd lagði á það áherslu að einungis yrði samið við þá bílstjóra sem hafa útbúið bíla sína samkvæmt þessum reglum.

Frá því í apríl hef ég óskað eftir fundi í skólanefnd, bæði með símtali við formann og einnig með tölvupósti til sveitarstjóra. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir þá hefur ekki verið haldinn fundur í skólanefnd vegna leikskólamála frá því í mars. Á þessum tíma eru samt miklar framkvæmdir í gangi, verið er að breyta húsnæði fyrir leikskólann og einnig hefur verið talsvert um mannaráðningar, allt málefni sem skólanefnd bera að hafa eftirlit með.

Eins og ég hef áður bent á þá er metnaður formanns fyrir starfi skólanefndar enginn. Með áhugaleysi sínu hefur hann gert öðrum í skólanefnd erfitt að gegna skyldum sínum. Hlutverk skólanefndar er mikið en ef skólanefnd starfar ekki þá er stjórnendum skólanna gert erfiðara fyrir að sinna sínu starfi.


Strúta - sveitarstjórn

Það er gaman að skoða blogg sem tengjast sveitinni minni, Skeiða- og Gnúpverjahrepp. Sem dæmi má nefna að sveitarstjórinn, Sigurður Jónsson, heldur úti bloggsíðu. Það er hins vegar dálítið merkilegt að á þessari bloggsíðu er hann fyrst og fremst að skrifa um málefni tengd Reykjanesi en örsjaldan er skrifað um Skeiða- og Gnúpverjahrepp. Hann setur að vísu stundum pistla á heimasíðu sveitarfélagsins, og vil ég gera einn þeirra að umræðuefni.

Í síðasta pistli sínum skrifar hann m.a. um ársreikning Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Ársreikningurinn núna er sá fyrsti sem skilar tekjuafgangi frá því að sveitarfélagið var stofnað. Orðrétt segir sveitarstjórinn síðan. "Eins og fram hefur komið lítur ársreikningurinn ágætlega út, sem má að miklu leyti skýra út með sölu fasteigna og hlutabréfa ásamt því að lítið var um framkvæmdir á árinu." Sem sagt: Við stóðum okkur vel. Við seldum frá okkur eignir og fengum söluhagnað og drógum úr framkvæmdum. Sveitarstjórinn tekur ekki fram að stórum framkvæmdum var frestað til þessa árs. Að auki kemur sveitarfélagið til með að hefja framkvæmdir við breytingar á húsum fyrir tugi milljóna. Þetta hef ég áður bent á og enginn mótmælt. Annað sem sveitarstjórinn segir ekki í pistli sínum er að söluhagnaðurinn af hlutabréfum í Límtré átti að renna til atvinnuuppbyggingar í sveitarfélaginu og því ljóst að ekki er hægt að nota þá peninga til framkvæmda. Það er því ljóst að Skeiða- og Gnúpverjahreppur kemur til með að vera rekinn með miklum halla á þessu ári.

Komandi hallarekstur kemur fyrst og fremst til með að myndast vegna lélegrar fjármálastjórnar sveitarstjórnar. Sem dæmi um fjármálastjórnina er hægt að benda á að sveitarstjórnin hefur lagt útí framkvæmdir fyrir tugi milljóna án þess að gera fjárhagsáætlun eða framkvæmdaáætlun. Meirihlutinn veit uppá sig sökina enda svara þeir fyrirspurnum í engu og stinga bara höfðinu í sandinn. Sennilega væri réttast að kalla þessa sveitarstjórn strútana.


Minning

Í dag var síðasti kennsludagurinn í Brautarholtsskóla. Því lýkur nú rekstri grunnskóla í Brautarholti. Brautarholtsskóli var teiknaður af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins, og hófst bygging skólans árið 1933. Skólinn var byggður af íbúum Skeiðahrepps og lögðu þar allir þeir sem gátu hönd á plóginn og var skólahúsið reist með samstilltu átaki Skeiðamanna. Skólahúsið hefur tekið breytingum síðan þetta var, byggt var við skólann 1983 og síðar eftir suðurlandsskjálftann árið 2000.

Það er hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps sem tók þá ákvörðun að legga niður Brautarholtsskóla sem grunnskóla. Ástæður hreppsnefndar eru óljósar fullyrðingar um sparnað en oft hefur verið sýnt fram á að með flutningi skólans næst ekki sparnaður heldur verður um kostnaðaraukningu að ræða. Skólaakstur kemur til með að aukast en annar kostnaður mun verða óbreyttur. Þær breytingar sem gera þarf á húsnæðum til að ný starfssemi rúmist í þeim koma þar að auki til með að hlaupa á tugum milljóna. Að vísu er erfitt að gera sér grein fyrir kostnaðnum þar sem engar áætlanir hafa verið gerðar og eftirlit er ekkert.

Metnaðarleysi sveitarstjórnar í menntamálum barna í Skeiða- og Gnúpverjahreppi endurspeglast í bókun formanns skólanefndar, Jóns Vilmundarsonar, frá því 12.07.2006 en þar var bókuð skólastefna sveitarstjórnar og er hún eftirfarandi: "Formaður greinir frá því að á sveitastjórnarfundi 20.06.2006. var ákveðið að fresta flutningi grunnskólans í Árnes til haustsins 2007"

Það verður svo sagan sem dæmir þessi verk sveitarstjórnar.


Trúnaðarmál?????

Ég hef fylgst með þessu rifrildi um að Alþingi hafi samþykkt að veita ungri stúlku ríkisborgararétt. Það er eitt atriði sem hefur vafist fyrir mér og enginn hefur svarað. Hvernig stendur á því að trúnaðargögn eins og umsókn um ríkisfang og fylgigögn rata í hendur fréttamanna? Hvar er trúnaðurinn og öryggið sem umsækjendur telja að sé til staðar? Héðan í frá getur enginn umsækjandi gert sér vonir um að gögn hans leki ekki til fréttamanna eða það sem alvarlegra er, til þeirra ríkja sem þeir eru að flýja. Ef hingað kemur pólitískur flóttamaður og sækir um ríkisfang má hann þá ekki gera ráð fyrir sömu meðferð hvað varðar hans gögn? Hér hefur trúnaður verið rofinn og það á mjög alvarlegan hátt.

Hvernig aflaði RÚV gagnanna? Greiddu þeir opinberum starfsmanni fyrir gögnin? Var þetta póitískur andstæðingur sem lak þeim? Kemst hver sem er í þessi gögn? Þessar og fleiri spurningar vakna þegar málið er skoðað.

Mér finnst alvarleikinn í því atriði svo mikill að ég tel að allir þeir sem hafa sótt um ríkisfang eða eiga eftir að sækja um ríkisfang, eigi heimtingu á að fram fari opinber rannsókn á því hvernig gögnin bárust til fréttastofu.


Jákvæð eða neikvæð niðurstaða?

Þær fréttir berast af fjármálum Skeiða- og Gnúpverjahrepps að mikill viðsnúningur hafi orðið í rekstri sveitarfélagsins sl. ár. Á heimasíðu sveitarfélagsins skrifar sveitarstjóri og gefur upp að rekstrarniðurstaða sé jákvæð, skuldir hafa lækkað og eignir aukist. Þetta er allt saman gott og vel en það verður nú samt að viðurkennast að skemmtilegt væri ef ástæður þessa alls veri bætt stjórnsýsla og þetta væri eitthvað varanlegt. Því miður bendir allt til þess að svo sé ekki. Ég hef bara heimasíðu sveitarfélagsins sem heimild auk vitnsekju um hvað hefur átt sér stað sl. ár auk þekkingar minnar á málefnum Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

Auknar tekjur

Hreppurinn seldi hús sl. ár. Bókfært verð hússins var einungis um 5 millj. en húsið seldist á 17,7 millj. mismunurinn eru tekjur. Hreppurinn seldi hlut í Límtré. Bókfærð virði hlutabréfanna var 17.709.000 sem er nafnverð. Bréfin seldust síðan á genginu 3,8 og var söluverð því 67.296.000 mismunirinn er tekjur. Einnig seldi hreppurinn aðra fasteign yfir matsverði. Tekjuaukning varð einnig þar sem hreppsnefndarmenn komust að því að heimild væri fyrir auknum fasteignagjöldum af virkjanamannvirkjum. Ég velti því hins vegar fyrir mér hversu lengi sveitarfélagið mátti innheimta þessi auknu fasteignagjöld. Að lokum var viðhaldi við þak félagsheimilisins Árness slegið á frest og þannig náðist að draga úr útgjöldum. Allt í allt þá er þarna um einnota tekjuaukningu að ræða þ.e. megnið af þessum tekjum eru tilkomnar með söluhagnaði á eignum og þær er ekki hægt að selja aftur. Ef söluhagnaður eigna er tekinn úr rekstrinum þá sést að sveitarfélagið var rekið með tapi enn eitt árið.

Aukning eigna

Sveitarstjórinn segir að á árinu 2006 hafi eignir aukist um 51,4 milljónir. Eins og ég sýndi hér að ofan þá voru eignir seldar langt yfir bókfærðu virði. Sem dæmi þá er söluhagnaður af hlutabréfum í Límtré rúmlega 49,5 milljónir. Eignaraukningin er því fyrst og fremst tilkomin vegna þess að eignir hafa verið vanmetnar í bókhaldi sveitarfélagsins.

Tapið framundan

Miklar framkvæmdir eru framundan í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Flytja á leikskólann úr sérhönnuðu húsnæði í gamla skólann í Brautarholti. Skólahúsið er á tveim hæðum og þarf talsverðar breytingar til að hægt verði að nota það sem leikskóla. Kostnaður hefur verið áætlaður rúmar 16 milljónir en gera má ráð fyrir að kostnaðurinn fari talsvert yfir 20 milljónir. Í framhaldi af þessu á að breyta leikskólahúsinu í bókasafn og má gera ráð fyrir talsverðum kostnaði vegna þeirra breytinga. Talsverðra breytinga er þörf í skólahúsnæðinu í Árnesi og talið er að sá kostnaður komi til með að hlaupa á tugum milljóna. Að auki verður viðhaldi á þaki Árness ekki frestað lengur. Athygli hefur vakið að ekki hafa verið gerðar kostnaðaráætlanir um þessi atriði eða leitað tilboða. Einungis var haft samband við nokkra iðnaðarmenn innan sveitarfélagsins og þeir beðnir um að skila útseldu tímaverði til sveitarstjórnar og síðan er einn valinn og hann virðist hafa nokkuð frjálsar hendur um tilhögun verksins.

Niðurstaða

Það er vanmáttug tilraun hjá sveitarstjóra að slá ryki í augu íbúa sveitarfélagsins með fyrirsögninni ”JÁKVÆÐ NIÐURSTAÐA” Í raun er niðurstaðan allt annað en jákvæð. Eignir voru seldar langt yfir bókfærðu virði, framkvæmdum slegið á frest, kostnaðaráætlanir ekki gerðar og tilboða ekki aflað í framkvæmdir. Að öllum líkindum verður sveitarstjórinn að birta grein á næsta ári undir fyrirsögninni ”NEIKVÆÐ NIÐURSTAÐA”.

 


Óafturkræft!!!

Það er eitt sem hafa þarf í huga þegar land er friðað, eða friðland er stækkað. Það er eiginlega ómögulegt að minnka friðland.

Hvað ef Þjórsárver eru að hopa. Ef þau eru að minnka og verða eftir 10-15 ár ekki nema svipur hjá sjón. Þá situm við uppi með friðaða sanda sem ekki má gera neitt við. Innan friðlanda má ekki veiða dýr enda lifa minkar og refir góðu lífi á friðlöndum en þeir virða ekki mörk friðlandsins þegar sækja á æti. Að auki þá valda þeir töluverðum usla í friðlandinu sjálfu.

Þeir sem mæla gegn virkjunum tala gjarnan um að þeir vilji nýta landið á sjálfbæran hátt. Ekki megi hafa nýtingarréttinn af afkomendum okkar með óafturkræfum aðgerðum. Það er sjálfsagt og eðlilegt að friða landssvæði en gætum þess að friðun er óafturkræf aðgerð og með friðun skerðum við einnig möguleika afkomenda okkar til að nýta landið í framtíðinni.


mbl.is Vilja að friðlandið í Þjórsárverum verði stækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er minni kjósenda virkilega svona lélegt?

Sjálfstæðisflokkurinn fær tæplega 41% atkvæða í Suðurkjördæmi skv. skoðanakönnun.  Þetta hlýtur því að vera sá flokkur sem kjósendur treysta best til verka og t.d. að fara með fjármuni Ríkissjóðs. Þetta segja menn þrátt fyrir að flokkurinn hafi hafið aftur til vegs og virðingar eina manninn sem hefur verið dæmdur fyrir að þiggja mútur í opinberu starfi og að draga að sér fjármuni sem honum var treyst fyrir af stjórnvöldum. Er minni kjósenda virkilega svona lélegt?

Að vísu verður að muna að Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi hafa bent kjósendum á að hægt sé að strika þennan frambjóðenda út og koma þannig í veg fyrir að hann komist á þing. Þetta segja þeir hins vegar einungis í orðræðum, maður á mann, þannig að erfitt er að herma þessi ummæli upp á þá.


mbl.is Sjálfstæðisflokkur bætir við sig tveimur þingmönnum í Suðurkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningar ..... en hvað svo????

Eftir mánuð verður kosið til Alþingis. Enn sem komið er eru fimm flokkar sem hafa af einhverri alvöru kynnt framboð en það eru Framsóknarflokkurinn, Frjálslyndi flokkurinn, Samfylking, Sjálfstæðismenn og Vinstri Grænir. Einnig hefur heyrst að til sé tveggja manna framboð sem heitir Íslandsflokkurinn og einhver samtök Reykvíkinga hafa spyrt sig við hóp eldri borgara. Ef skoðaðar eru kannanir í dag og þessi framboð, bæði framkomin og óskhyggjan, þá gæti verið gaman að spá í framhaldið. Hvað verður eftir kosningar. Til hliðsjónar hef ég könnun Gallup frá 5. apríl.

Sjálfstæðismenn verða stæsti flokkurinn með um 40% atkvæða og 27 þingmenn, Framsóknarflokkurinn fær um 8% og 5 menn, Samfylking fær 19,5% og 13 menn, Vinstri Grænir um 21% og 15 menn og loks Frjálslyndir með 5,4% og 3 þingmenn.

Hvernig stjórn verður hægt að mynda eftir kosningar? Jú samkvæmt þessu mun kaffibandalagið ekki geta tekið við stjórnartaumunum. Til þess er ekki meirihluti. VG og Samfylking hafa oft bent á að þeirra markmið sé að fella stjórnina og þannig í raun skikkað Framsókn og Sjálfst.fl. til að ræða saman eftir kosningar fái þeir til þess meirihluta.

Ef niðurstöður þessarar skoðunarkönnunar segir til um úrslit kosninganna er einnig ljóst að VG og Samfylking verða ekki saman í ríkisstjórn að afloknum kosningum. Til þess að það sé hægt þurfa flokkarnir á Framsókn að halda en þar sem kosningaslagorð VG er Zero Framsókn þá er ólíklegt að þeir vilji starfa með Framsóknarflokknum. Þannig hafa VG og Samfylking hamast við að gera sér dælt vð Sjálfstæðisflokkinn og í raun leitt hann í forystusætið að afloknum kosningum. Það hefur enda þótt undrun sæta að VG hefur lítið sem ekkert beitt sér gegn "höfuðandstæðingnum", Sjálfstæðisflokknum, heldur einbeitt sér að Framsóknarflokknum. 

Ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hefur gert margt gott sl. 12 ár. Á það ber líka að líta að nokkuð hefur mátt betur fara. Hins vegar er það nú þannig að ríkisstjórnin byggir á samstarfi og samningum. Það er því ljóst að þau góðu mál sem Framsóknarflokkurinn hefur komið í gegn eru einnig mál sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur komið í gegn og öfugt. Það er t.d. ekki Framsóknarflokknum einum að þakka að atvinnuástand á austurlandi er í blóma, og ekki er það Sjálfstæðisflokknum einum að þakka að ráðist verður í að tvöfalda þjóðveg 1 milli Selfoss og Reykjavíkur.  

Við Framsóknarmenn verðum að hafa þetta í huga þegar kosið verður eftir mánuð. Eina leiðin fyrir okkur til að hafa áhrif í framtíðinni er að koma sterkir út úr kosningunum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jónas Yngvi Ásgrímsson
Jónas Yngvi Ásgrímsson

er framsóknarmaður búsettur í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og hefur skoðanir á málefnum sveitarinnar.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband