Færsluflokkur: Bloggar
6.12.2007 | 13:35
Útvarp Suðurland
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.11.2007 | 10:52
Aukin skattheimta Skeiða- og Gnúpverjahrepps
Sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur bent á þá staðreynd að afkoma sveitarfélagsins hefur batnað töluvert milli áranna 2005 og 2006. Hann hefur hins vegar ekki látið þess getið hvernig þessi bætta staða kom til.
Árið 2005 voru íbúar sveitarfélagsins 521 en 527 árið 2006. Á árinu 2005 voru tekjur sveitarfélagsins 495 þús. á hvern íbúa en árið 2006 voru tekjurnar tæp 604 þús. á hvern íbúa. Tekjurnar aukast sem sagt 109 þús. (eða 22%) milli þessara tveggja ára.
Það er ekki mikið mál að skila betri afkomu ef skattarnir eru bara hækkaðir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.11.2007 | 15:55
Leikskólamál - "þetta reddast"
Þann 22.11. var haldinn fundur í skólanefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps um leikskólamál. Í fundarboði var kynnt að fjallað yrði um starfsmannamál, skólaakstur, reikninga fyrir leikskólavistun og fjárhagsáætlun auk annarra mála.
Eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar lá það fyrir að meirihluti sveitarstjórnar vildi flytja allt leikskólastarf í Brautarholt. Til að koma til móts við foreldra ákvað meirihlutinn að standa við loforð um skólaakstur fyrir nemendur leikskólans. Þann 3. september 2007 hófst aksturinn samkvæmt ákvörðun skólanefndar frá 26. júní 2007. Núna rúmlega tveim mánuðum síðar er komin uppgjöf í liðið. Á fundinum kom fram að starfsmenn leikskólans treysta sér ekki til að halda þessu starfi áfram. Sá starfsmaður sem tók að sér að fylgja börnunum í skólabílnum vill hætta því starfi og það var að heyra á leikskólastjóra og fulltrúa starfsfólks að þessu fylgdi mikil vinna fyrir starfsfólk og auk þess var kvartað yfir því hvað samskipti við foreldra væru lítil. Einnig var bent á að kostnaður við þennan akstur væri mjög mikill. Ég benti á að þetta væru allt gamlar fréttir. E-listinn hefði bent á öll þessi atriði fyrir kosningar. Þá var hins vegar annað hljóð í mönnum, sveitarstjórnarmönnum sem og öðrum sem sátu á listum A og L-lista. Þeirra orðatiltæki var einfaldlega "þetta reddast". Nú er sem sagt komið að enn einni reddingunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.11.2007 | 11:23
Ráðherrar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar ekki samstíga
Í haust kom Björgvin Sigurðsson, viðskiptaráðherra, fram á forsíður dagblaðanna með þær yfirlýsingar að nú ætti að bæta hag lántakanda íbúðarlána með niðurfellingu stimpilgjalda af lánunum. Þessar yfirlýsingar ráðherra rötuðu á forsíður flestra blaða nokkra daga í röð með alls konar greinarskrifum og úttektum á ágæti þessarar aðgerðar hans. Í 24 stundum fimmtudaginn 8. nóv. var hins vegar lítil frétt á síðu 6, frétt sem ekki hefur fengið mikla umfjöllun eða fyrirsagnir. Fréttin er svo stutt að ég nenni að skrifa hana upp hér á eftir:
"Stimpilgjöldin innheimt áfram Stimpilgjöld af lánum verða ekki afnumin á næsta ári. Ríkisstjórnin hyggst fella þau niður þegar aðstæður á fasteignamarkaði gefa tilefni til. Vaxtahækkanir banka og ákvörðun Kaupþings um að stöðva framsal íbúðarlána breytir ekki forgangsröðun fjármálaráðherra. Hvort stimpilgjöldin hverfa á þarnæsta ári eða rétt fyrir næstu kosningar gæti skýrst í vor"
Svo mörg voru þau orð. Það er dálítið forvitnilegt til að hugsa að svona misvísandi yfirlýsingar ráðherra í síðustu ríkisstjórn hefðu líklega orðið til þess að einhver fjölmiðillinn hefði rokið upp og slegið því upp á forsíðu að menn væru ekki sammála.
Eftir stendur samt sem áður að viðskiptaráðherra er greinilega full fljótur á sér þegar kemur að því að slá sig til riddara. Eða virkar stjórnarsamstarfið kannski þannig að Samfylkingin er eins og krakki að gaspra um menn og málefni og síðan kemur hinn ábyrgi Sjálfstæðisflokkur og tuktar krakkann og leiðréttir delluna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.9.2007 | 00:10
Gítarsmíði
Ég hef undanfarin kvöld aðeins dundað við að aðstoða mág minn við að smíða gítar. Þetta er náttúrulega vandasöm nákvæmnisvinna og bara skemmtilegt að dunda við. Jonni mágur hefur smíðað nokkra gítara um dagana og er núna að vinna í einum sem er afmælisgjöf til bróður hans.
Í dag var réttað í Reykjaréttum í tveggja stiga hita og slyddu. Undir kvöld var hins vegar komin snjókoma og krakkarnir gölluðu sig upp til að fara í snjókast. Veturinn kemur snemma í ár. Hins vegar höfðu bændur það á orði að snjókoma snemma að hausti kallaðist haustkálfur og þetta táknaði einfaldlega að við ættum von á góðu hausti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.8.2007 | 19:23
Verður Þjórsá virkjuð?
Það er nokkuð víst að hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps kemur til með að samþykkja virkjanir í Þjórsá. Til gamans ætla ég að velta upp hvernig atkvæðagreiðsla fer í hreppsnefndinni og ástæður fyrir því hvernig menn greiða atkvæði.
Gunnar Örn Marteinsson, oddviti, (A-listi) kemur til með að samþykkja virkjanir í Þjórsá. Gunnar hefur verið yfirlýstur stuðningsmaður virkjana og eitt af kosningamálum A-listans var stuðningur við virkjanir.
Ingvar Hjálmarsson, (A-listi) samþykkir sennilega líka. Hann er ekki þekktur fyrir að óhlýðnast Gunnari og fara gegn þeim línum sem settar eru af A-listanum.
Jón Vilmundarson, (L-lista) samþykkir virkjanir. Hjá honum er of mikið í húfi en talsvert land í hans eigu fer undir vatn, verði virkjað. Eina sem gæti breytt afstöðu Jóns er að hann fái ekki nægjanlega háa greiðslu fyrir landið. Jón getur samt ekki greitt atkvæði um virkjunina þar sem hann er vanhæfur. Þess má geta að eitt af stefnumálum L-listans var andstaða við virkjanir.
Tryggvi Steinarsson, (L-lista) greiðir atkvæði gegn virkjun. Tryggvi hefur verið andstæðingur virkjana í Þjórsá og fylgir þannig stefnu L-listans.
Björgvin Skafti Bjarnason, (E-lista) greiðir atkvæði gegn virkjun. E-listinn var hlynntur skynsamlegri nýtingu náttúrunnar en Skafti telur að ekki séu komin fullgild rök fyrir virkjun.
Samkvæmt þessu verður virkjað í Þjórsá. Hins vegar er Jón Vilmundarson það vanhæfur að kalla þarf inn varamann fyrir hann. Það mun því verða á valdi Hauks Haraldssonar hvort Skeiða- og Gnúpverjahreppur komi til með að samþykkja virkjanir í Þjórsá eða ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.8.2007 | 13:43
Á að virkja í Þjórsá?
Það er dálítið merkilegt að fylgjast með umræðunni um hvort eigi eða eigi ekki að virkja í Þjórsá. Landsvirkjun telur nauðsynlegt að virkja og helst þarf að gera 3 virkjanir í ánni. Af þessum virkjunum eiga að skapast miklar tekjur og allt á að verða grænna og betra.
Í Skeiða- og Gnúpverjahreppi eru skiptar skoðanir um málið og má segja að menn skiptist í þrjár fylkingar. Sú sem hæst lætur eru náttúrulega virkjanaandstæðingar en þeir halda fundi, setja upp spjöld og skilti og skrifa greinar. Samkvæmt þeirra málflutningi er þarna um mikil náttúruauðæfi að ræða sem færu undir vatn. Að vísu er að mestu um ræktað land og mela að ræða, en sínum augum lítur hver á silfrið. Virkjanaandstæðingar hafa einnig fengið bandamann í lið með sér en það er umhverfisráðherra. Andstæðingar virkjana boðuðu til fundar og umhverfisráðherra sá sér fært að mæta á þann fund, enda líkur á að fjölmiðlar kæmu með myndavélar og hún fengi smá umfjöllun sem hægt væri að nýta í framtíðinni. Það eru hins vegar liðnir nokkrir mánuðir síðan hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps fór fram á fund með umhverfisráðherra en hún hefur ekki enn séð sér fært að svara hreppsnefndinni. Sennilega ekki eins fjölmiðlavænt.
Í sveitarfélaginu eru einnig nokkrir einstaklingar sem eru fylgjandi virkjunum. Þessir einstaklingar telja að virkjun lyfti atvinnulífinu upp og við fáum eitthvað endurgjald fyrir þau verðmæti sem vatnsaflið er. Þessi hópur er ekki eins hávær og andstæðingarnir en heyrist samt aðeins í þeim.
Síðan eru það þeir sem eru á báðum áttum. Finnst ekki nægjanleg rök hafa komið fram fyrir virkjun og ekki heldur gegn virkjun. Er fullrannsakað hvort ekki komi til með að koma vatn upp um hinar ýmsu hraunsprungur neðst í hreppnum? Fær Skeiða- og Gnúpverjahreppur einhverjar tekjur af fasteignagjöldum? Eru þetta virkilega einhverjar náttúruauðlindir sem færu undir lón? Er nauðsynlegt að virkja?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.8.2007 | 17:51
Samvera foreldra og barna
Á fundi skólanefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps sem haldinn var 18.12.2006 lagði Jóhannes Sigurðarson fram eftirfarandi tillögu:
Ég undirritaður legg til að á næsta skólaári verði vistunartími leikskólabarna ekki bundinn af að hafa fjóra daga vikunnar jafn langa. Eins og fyrirkomulag vistunartíma leikskólabarna er í dag er foreldrum skylt að greiða fyrir jafn marga tíma á dag fjóra daga vikunnar þ.e.a.s mánudaga til fimmtudaga þarf barnið að vera jafn langa daga. Ég undirritaður legg til að þessu verði breitt
þannig að henti vinnutíma eða milliferðatíma þeirra sjálfra. Þetta mundi sérstaklega nýtast foreldrum yngstu barnanna sem ekki geta eða vilja nýta sér milliferðabíl úr Árnesi í Brautarholt.Ég tel að þessi sveigjanleiki mundi frekar stuðla að styttri vistunartíma hjá börnunum og þar af leiðandi meiri samveru foreldra og barna.
Með samþykkt þessarar tillögu gerði skólanefndin sér vonir um að foreldrar gætu séð sér hag í að stytta vistunartíma barnanna þá daga sem færi gæfist vegna vinnu. Leikskólastjóri hefur margoft andmælt þessari tillögu og sendi m.a. erindi til sveitarstjórnar þar sem hún freistaði þess að hnekkja tillögunni en allt kom fyrir ekki. Á síðasta fundi skólanefndar sagði leikskólastjóri síðan að ef tillaga hennar um fjölgun skipulagsdaga yrði samþykkt þá myndi hún gangast undir að vinna eftir tillögu Jóhannesar.
Nú er leikskólinn að hefja starfssemi sína veturinn 2007 - 2008. Ekki hefur leikskólastjóri enn séð ástæðu til að kynna þessa samþykkt fyrir foreldrum í sveitarfélaginu. Sennilega verður þessari tilraun lokið áður en hún hefst sökum andstöðu leikskólastjóra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.7.2007 | 10:37
Niðurgreidd fasteignagjöld
Samkvæmt frétt af heimasíðu Skeiða- og Gnúpverjahrepps og bloggi sveitarstjóra hefur sveitarstjórn ákveðið að styrkja fyrirtæki í Skeiða- og Gnúpverjahreppi til frekari markaðssetningar. Styrkurinn kemur til með að nema a.m.k. 20% af fasteignagjöldum atvinnuhúsnæðis viðkomandi (B stofn).
Sveitarfélagið styrkir ýmsa atvinnustarfssemi sérstaklega. Má þar nefna ferðamál, en Skeiða- og Gnúpverjahreppur stendur að rekstri skrifstofu ferðamálafulltrúa. Sauðfjárrækt en þar styrkir sveitarfélagið uppbyggingu og viðhald rétta ásamt með afréttarmálum o.fl. Í Skeiða- og Gnúpverjahreppi er hins vegar rekin annars konar starfssemi sem ekki kemur til með að njóta þessara styrkja. Verktakar í landbúnaði, húsasmiðir, rafvirkjar, skrifstofuþjónusta. Þetta er allt starfssemi sem kemur ekki til með að fá styrk til "markaðssetningar".
Í bókun Skeiða- og Gnúpverjahrepps er engin kvöð um að styrkurinn eigi að renna til markaðssetningar. Það er ekki kveðið á um að einhver eftirfylgni sé með í hverju styrknum skuli eytt. Spurningin er því af hverju var sveitarstjórnin að hækka gjöldin. Er það kannski til að ná inn auknum tekjum af þeim sem eiga atvinnuhúsnæði í sveitarfélaginu en greiða ekki útsvar hingað. Þar koma fyrst og fremst í hugann þeir einstaklingar sem keypt hafa jarðir í sveitarfélaginu sl. ár en ekki flutt hingað sjálfir. Það hlýtur að vera spurning um réttmæti þessarar ákvarðanar ef tekið er mið af jafnræðissjónarmiðum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.7.2007 | 15:37
Svar við bókun formanns skólanefndar
Varðandi fjölda funda skólanefndar segir formaður orðrétt í bókun sinni: " Í erindisbréfi fyrir skólanefnd er kveðið á um að haldnir skuli a.m.k. fjórir fundir í skólanefnd á starfsári skólans. Haldnir hafa verið fundir um leikskólamál í nóvember, desember, mars og er þessi fundur sá fjórði í röð á skólaárinu." Þrátt fyrir miklar breytingar í starfi leikskóla finn formanni nóg að halda fjóra fundi á árinu. Ástæður þess að ég vildi hitta skólanefnd og leikskólastjóra oftar, eða a.m.k. fyrr, eru margar en hér koma þær helstu.
- Leikskólastjóri hefur bent á að leikskólinn hefur verið undirmannaður lengst af vetri.
- Ekki er enn búið að afgreiða rekstraráætlun fyrir árið 2007
- Verið er að endurbyggja húsnæði Brautarholtsskóla fyrir leikskólann og ég tel að skólanefnd eigi að hafa eftirlit með framkvæmdum
- Ganga hefur þurft frá mannaráðningum t.d. í afleysingastarf leikskólastjóra
Að vilja ekki ræða þessi mál á vettvangi skólanefndar þykir mér bera vott um tómlæti.
Formaður segir einnig í bókun sinni:" Undirritaður hefur ekki séð ástæðu til að kalla saman
aukafundi til þess eins að flýta fyrir birting bókanna frá einstökum nefndarmönnum enda fylgir hverjum bókuðum fundi umtalsverður kostnaður." Það er rétt að ég hef tvisvar farið fram á að haldnir verði fundir í skólanefnd. Í bæði skiptin hef ég haft samband við formann og rökstutt af hverju ég telji að boða ætti fund og hann í framhaldi samþykkt að boða fundina. Síðan hefur hann einfaldlega sleppt því. En þar sem formaður heldur núna að ég hafi ætlað að fá þessa fundi einungis til að "flýta fyrir birtingu bókana" þá er best að ég gefi öðrum upp ástæður þess að ég taldi að boða ætti skólanefndarfundi.
Í fyrra skiptið var um að ræða að oddviti, sveitarstjóri og formaður skólanefndar kynntu framtíðarstaðsetningu leikskólans þrátt fyrir að skólanefnd væri með málið í vinnslu og verið væri að fjalla um staðsetninguna í skólanefnd. Ég vildi því fá fund til að fá fram afstöðu skólanefndar eða hvort skólanefnd væri óþörf í ákvarðanaferlinu.
Í seinna skiptið sem ég fór fram á fund hafði mér borist til eyrna að erfitt væri að manna leikskólann, það hafi jafnvel komið fyrir að einungis hafi verið einn starfsmaður á vakt. Ég hafði líka lesið í fréttabréfi leikskólans að leikskólastjóri væri farin í fæðingarorlof og önnur tekin við, án þess að skólanefnd hafi nokkuð komið þar nærri. Í minni formannsins er þetta hins vegar orðið að "flýta fyrir bókunum".
Að taka ekki á þessum málum þegar á er bent þykir mér bera vott um tómlæti.
Formaður telur ekki vera svara vert að vera ásakaður um metnaðarleysi í málefnum leik- og grunnskóla. Hann bendir á umfangsmikla uppbyggingu á bættri aðstöðu fyrir bæði leik- og grunnskóla og endurnýjun tölvubúnaðar. Þarna má benda á að grunnskólinn minnkar að flatarmáli og ekki á að gera neinar endurbætur á húsnæði grunnskólans. Eins er ekki enn búið að ljúka frágangi á tölvukaupum þrátt fyrir að tilboð hafi borist sl. vetur. Hins vegar hefur sveitarstjórnin ekki sett neina stefnumörkun eða skólastefnu aðra en að flytja grunnskólan í Árnes.
Það er metnaðarleysi og eins er hægt að benda á tómlæti við afgreiðslu á tölvutilboðum.
Formaður lýkur bókun sinni með því að benda á að það eigi að vera forgangsmál skólanefndar að skapa nemendum og starfsmönnum góða starfsaðstöðu og jákvætt umhverfi. Það er ekki gert með því að hundsa umræðu um manneklu. Það er ekki gert með því að halda ekki fundi í skólanefndinni. Það er ekki gert með því að fylgjast ekki með fjármálum stofnana sveitarfélagsins. Þetta er tómlæti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar