Færsluflokkur: Bloggar

Er "Kreppustjórnin" að springa?

Er Ísland á sínum síðustu dögum sem fullvalda ríki? Það er líklegt að ef IMF kemur hingað með tilsjónarmann með Kreppustjórninni þá séu dagar okkar sem fullvalda ríkis taldir. Jón Baldvin vill stjórnarslit og Samfylkingin er í góðri stöðu núna komi til kosninga. Sjálfstæðismenn hins vegar eru búnir að vera í stjórn í langan tíma og allan þann tíma haft með höndum ráðuneyti sem vega þungt í núverandi ástandi.

Annars hafa mér fundist skýringar ráðamanna og bankamanna á því hvers vegna fór sem fór all fáránlegar. Þetta sé allt vondu bönkunum að kenna sem vildu ekki lána okkur meira. Mér hefur skilist að ef einstaklingur fái ekki lán í bönkum til að framlengja öðrum lánum þá sé viðkomandi gerður gjaldþrota (oftast af kröfu innlendra banka) og það sé bara honum að kenna og engum öðrum. Samkvæmt söguskýringu bankamanna nú undanfarið þá má kenna þeim um öll gjaldþrot sem hafa orðið á Íslandi liggur við frá upphafi.


mbl.is Ráðherrar funda á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á sveitarfélag að styðja sérstaklega við atvinnustarfssemi?

Á fundum skólanefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur margoft komið fram að Ábótinn ehf. hefur fengið talsverðan óbeinan stuðning við reksturinn. Ekki liggur það einungis í því að sveitarfélagið og stofnanir þess kaupi talsverða þjónustu af Ábótanum heldur hefur Ábótinn fengið afstúkað rými í Þjórsárskóla fyrir búnað sinn án þess að til greiðslu hlusaleigu hafi komið. Ekki hefur ábótinn heldur greitt fyrir rafmagn eða aðra þjónustu sem til fellur vegna þessa húsnæðis. Það yrði vafalaust mörgum fyrirtækjum mikill stuðningur ef þau fá fría húsaleigu og rekstarkostnað hjá sveitarfélaginu.

Nú standa yfir samningaumleytanir við netþjónabú um aðstöðu o.fl. í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Til að jafnræðisreglunnar sé gætt að fullu þá vaknar sú spurning hvort sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps beri ekki að greiða fyrir netþjónabúinu á sama hátt og fyrirgreiðsla til handa Ábótanum hefur verið þ.e. ókeypis húsaleiga í nokkur ár auk þess að greiða rafmagnskostnað. Það eru auk þess nokkur fyrirtæki í sveitarfélaginu sem myndu þiggja svona rausnarskap.


Þá þarf ekki að eyða í þessa vitleysu áfram

Loks erum við laus við þessa vitleysu. Nú þurfum við ekki að eyða milljónahundruðum á komandi árum til að halda úti mannskap í þessa öryggisnefnd. Það er líka spurning hvort við áttum eitthvað erindi þangað hvort sem er. Við eigum kannski að sætta okkur við það að við erum smáþjóð sem rambar á barmi gjaldþrots, þjóð sem kemur kannski til með að hætta sem fullvalda þjóð til að greiða upp skuldir útrásrar og mikilmennsku undanfarinna ára. Nú þegar er fjöldi manns um allan heim andsnúnir okkur, Íslendingar eru ekki lengur þeir auðfúsugestir sem þeir áður voru. Eina von okkar núna er að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn bjargi okkur áður en einhver þjóð aumkar sig yfir okkur og kaupir okkur út. Þá er sjálfstæði okkar horfið. Vonandi að við getum haldið einn fullveldisdag í viðbót.

Hættum nú að eyða í einhverja útrásarvitleysu eða mikilmennskuóra og snúum okkur að því að laga ástandið hér innanlands.


mbl.is Auðvitað vonbrigði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru þetta nýjar fréttir???

Ég bý í Skeiða- og Gnúpverjahreppi en vinn í Reykjavík. Allan þann tíma sem ég hef búið hérna hefur þetta verið þekkt staðreynd. Það er sama hversu varlega ég fer, það er bíllinn á móti. Þarna skipta hraðatakmarkanir litlu máli. Sá sem sofnar við stýri er heldur ekki meðvitaður um hraðann hjá sér. Það má líkja akstrinum við rússneska rúllettu, slepp ég í dag eða ekki. Sveitarstjórnir á Suðurlandi hafa í mörg ár barist fyrir tvöföldun þjóðvegarins en ekki fengist í gegn. Mikilvægara hefur þótt að nota peninginn til að bora jarðgöng í öðrum kjördæmum. Kannski eru þingmenn okkar sunnlendinga svona linir eða að þeim er bara alveg sama. Eini peningurinn sem hefur fengist í verulegar samgöngubætur á Suðurlandi er í rörið hans Árna Johnsen (167-671). Núna er þetta stopp í ferlinu. Björgun mannslífa þarf að fara í umhverfismat.

Það er kominn tími til að láta verkin tala og hefja framkvæmdir.


mbl.is Vara við Suðurlandsvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Færum bankana til fólksins

Þá er bara að vona að botninum sé náð. Nú liggur fyrir að finna leiðir út úr vandanum.

Það er ljóst að meginþorri Íslendingar hefur orðið fyrir talsverðu tapi á þessu bankagjaldþroti. Sumir hafa farið að ráðum ríkisstjórnarinnar og fjárfest í hlutabréfum til að fá skattaafslátt. Þessi hlutabréf eru núna einskis virði. Sumir fóru að ráðum bankanna og lögðu peninga inn í sjóði sem nú eru tómir. Sumir eru með verðtryggðar skuldir sem hafa hækkað á verðbólgubálinu og sumir eru með erlend lán sem hækka með fallandi krónu. Það er náttúrulega engin spurning að ríkið á að koma öllu þessu fólki til aðstoðar. Almenningur í landinu hefur tekið á sig umtalsverða kjaraskerðingu ásamt því að lífeyrisréttindi þeirra hafa skaðast með tapi lífeyrissjóðanna. Ekki hefur hins vegar verið hróflað við lífeyrisréttindum ráðherra og þingmanna.

Nú á ríkið að skipta bönkunum í tvo hluta 50% heldur ríkið eftir og 50% er skipt meðal landsmanna eftir einhverjum ákveðnum reglum. T.d. mætti undanskilja útrásarmennina, bankastjórnendurna og þingmenn (þar sem þeir settu reglurnar). Síðan þegar bankarnir eru orðnir að söluvöru aftur þá gætu einstaklingarnir selt bréfin sín eða fengið af þeim arð. Við verðum að líta til þess að ríkissjóður hefur enn ekki tapað á þessu brambolti öllu en það hafa einstaklingar gert. 


Var það svo dýralæknirinn....

Nú jæja, það var víst ekki Davíð sem var hryðjuverkamaðurinn heldur var það dýralæknirinn í fjármálaráðuneytinu sem gat ekki gert sig skiljanlegann á ensku. Það er eins gott að hann getur ekki bjargað sér á rússnesku svo hann klúðri engu þar.
mbl.is Samtal við Árna réð úrslitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lausn allra okkar vandamála

Enn er þrætt um Evruna og Evrópusambandið. Getum við tekið upp Evru svo allt verði nú gott? Eigum við að ganga í Evrópusambandið? Tekur þetta okkur langan tíma? Verandi Íslendingar þá viljum við náttúrulega að allt taki sem skemmstan tíma, helst svona viku eða svo. En viti menn. Það er til lausn á öllu þessu. Stuttur tími, Evra, Evrópusambandið og allt verður dásamlegt.

Þeir setjast bara niður forsetinn og forsætisráðherrann og skrifa stutt bréf. Ég get meira að segja gefið þeim smá forskrift hérna:

Kæra Þórhildur drottning

Það virðist hafa komið upp einhver misskilningur þarna um árið og við allt í einu lent í þeim hremmingum að vera sjálfstæð þjóð með einhverja ríkisstjórn og alþingi og forseta og seðlabanka og íslenska krónu. Þetta átti náttúrulega aldrei að verða svona en það var bara eitthvað klúður. Það sjá það náttúrulega allir sem vilja sjá að 300.000 manns er allt of lítið til að teljast þjóð með öll þau hlutverk sem hún þarf að standa undir (alveg eins og við erum alltaf að segja sveitarfélögunum hérna). Nú er svo komið að þessi misskilningur hefur staðið yfir allt of lengi og því viljum við svo meget gjerne verða bara íslenskir danir aftur. Það má benda á að við erum komnir langt á veg með að verða dönsk þar sem það kostar álíka mikið að fljúga til Kaupmannahafnar og til Egilsstaða.

Jeres kammerater

Ólafur og Geir

Það er náttúrulega einfaldast að gerast dönsk nýlenda að nýju. Við erum komin inn í Evrópusambandið með det samme, krónan verður dönsk og tengd evru. Við þurfum ekki seðlabanka svo Davíð getur bara hætt að skemma stjórnast með gjaldmiðilinn. Dýralæknirinn getur bara snúið sér aftur að hestunum og ríkisstjórnin og alþingi og aðstoðarmennirnir geta komið út á vinnumarkaðinn og farið að vinna almenna launavinnu (þar sem kaupið má ekki hækka svo að þjóðarskútan sigli ekki í kaf).

(Ætli ég lendi í vondum málum við ÞÖ (þjóðaröryggislögguna hans Bjössa) útaf þessum pælingum mínum)


Af hverju að bjarga bönkunum???

Í þeirri kreppu sem er yfirvofandi er sífellt talað um að það þurfi að bjarga bönkunum. Okkur almennum launþegum finnst nóg um. Það má auðveldlega leiða líkum að því að ástandið sé að miklu leytil þeim að kenna. Undanfarið hafa þeir rekið ofurlaunastefnu, stundað sína áhættufjármögnun með peningum viðskiptavina sinna, ruku af stað með 100% fjármögnun á húsnæði og þannig mætti lengi áfram telja. Bankarnir eru grunaðir um að leika sér með krónuna til að skila betri afkomu á pappírunum og sprengja þannig upp verðlagið á bensíni og matvöru, sem á móti hækkar verðbætur sem leggjast á skuldir heimilanna. 

Mér finnst meiri þörf á að bjarga heimilunum í landinu. Það mætti t.d. gera það með því að auka vaxtabætur, eða aðstoða heimilin á einhvern hátt við að standa undir háum verðbótum og vöxtum. Þannig væri bankakerfið aðstoðað með því að auðvelda heimilunum að standa við skuldbindingar sem gerðar voru við áðurnefnda banka þegar allt lék í ljóma.

Það er ljóst að ef ástandið heldur áfram á þeirri braut sem verið hefur blasir við fjöldagjaldþrot heimila. Fjölskyldur tapa öllu sínu og eigurnar renna til bankanna sem hafa allt sitt á hreinu í formi veða og ábyrgða. Ætli þetta endi ekki þannig að bankarnir verði einir eftir á landinu með allar eignirnar.


Gott að þeir séu ekki ljósmæður

Þetta er nú meiri lúxusinn hjá þeim. Ekki þurfa þeir að fara í verkfall, eða eiga von á kæru frá fjármálaráðherra. Þeir geta dundað sér við að leiðrétta þann órétt sem þeir samþykktu varðandi eftirlaunin án þess að eiga von á eftirmálum. Þeir geta farið á ráðherrabílum í réttir og sagt síðan að þeir séu ekki í vinnunni og neitað viðtölum. Ef þeir fara í ferðalög þá fá þeir greidda tvöfalda dagpeninga þrátt fyrir að allur kostnaður sé greiddur. Það má ekki minnast á siðareglur hjá þeim þó þeir séu manna duglegastir við að setja lög um hvernig við hin eigum að haga okkur.

Þetta eru sennilega heppnustu launþegar landsins.


mbl.is Laun æðstu embættismanna hækkuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttir

Í dag (fimmtudagur 11.09.) stormar sauðfé til byggða til að taka þátt í réttum. Í Skeiða- og Gnúpverjahreppi eru tvær réttir og verður réttað í þeirri fyrri, Skaftholtsréttum, þann 12.09. og þeim síðari, Reykjaréttum, þann 13.09. Rigningin hefur séð um að skola allt hérna þannig að réttirnar ættu að verða fínar þegar fé og fólk mætir. Annars hefur það verið þannig undanfarin ár að vart hefur mátt á milli sjá hvor hópurinn er stærri, fólk eða fé.

Þessir dagar eru jafnan miklir hátíðisdagar í sveitinni. Menn hittast og skiptast á sögum, draga fé og hafa gaman af deginum. Sjálfur réttardagurinn fer síðan í að rúnta milli bæja og smakka kjötsúpu. Það er annars magnað hvað það eru til margar tegundir af kjötsúpu. Þessir dagar eru sérstaklega góðir fyrir börnin en þau fá að skemmta sér með þeim fullorðnu og flakka á milli bæja.

Ég hvet alla sem vettlingi valda að kíka í réttir, annaðhvort fyrir börnin eða fyrir börnin í sjálfum sér.

Ég fann hérna smá myndband á youtube frá Reyðarvatnsrétt 2007 og ákvað að skella honum með hérna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jónas Yngvi Ásgrímsson
Jónas Yngvi Ásgrímsson

er framsóknarmaður búsettur í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og hefur skoðanir á málefnum sveitarinnar.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.2.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband